135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[15:37]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns eins og aðrir þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þá skýrslu sem hér er til umræðu og fyrir ræðu hennar í dag. Skýrslan er mjög yfirgripsmikil og fróðleg og gefur góða yfirsýn yfir þau mál sem helst eru í deiglunni um þessar mundir hvað varðar utanríkisstefnu okkar og það sem er hvað fyrirferðarmest á alþjóðavettvangi.

Í umræðunni hefur verið farið vítt og breitt yfir sviðið eins og gengur og talað hefur verið um nýja og gamla hornsteina utanríkisstefnunnar. Í mínum huga hafa mannréttindi alltaf verið hornsteinar íslenskrar utanríkisstefnu, a.m.k. hafa íslensk stjórnvöld ávallt í ræðu og riti og með verkum sínum lagt ofuráherslu á mannréttindi, útbreiðslu þeirra og virðingu fyrir þeim.

Ég get glatt hv. þm. Steingrím J. Sigfússon með því að á blaðsíðu 18 í skýrslunni er talað um gömlu góðu hornsteinana, varnarsamninginn við Bandaríkin og aðildina að Atlantshafsbandalaginu, og var ég náttúrlega afar glöð að sjá það. (SJS: Það er kafli fyrir ykkur.) Það er kafli fyrir okkur öll, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, þú mátt eiga hann líka.

Þegar við ræddum utanríkismál í haust voru öryggis- og varnarmál einna fyrirferðarmest í umræðunni og það er eðlilegt þar sem uppi er, eins og öllum er kunnugt um, ný staða í þeim málum. Við höfum rætt þá stöðu ítarlega oft og mörgum sinnum í þessum sal og nú síðast í tengslum við frumvarp hæstv. utanríkisráðherra um varnarmál, sem eftir því sem ég best veit verður hér síðar í dag til 2. umr. Ég ætla ekki að verja miklum tíma í öryggis- og varnarmálin á þeim stutta tíma sem ég hef núna. Ég hef lýst því áður að ég fagna því frumvarpi sem við ræðum hér í dag og þeim ramma sem verið er að setja um þá starfsemi tengda varnarmálum sem við sjálf berum nú fulla ábyrgð á. Ég held að þetta sé skynsamlegt skref og rökrétt framhald af þeirri þróun mála sem orðið hefur.

Hér hefur verið rætt talsvert um Atlantshafsbandalagið enda eðlilegt þar sem það er okkur mikilvægt og mönnum er það mjög hugleikið nú eftir að leiðtogafundinum í Búkarest er nýlokið. Við áttum orðaskipti í síðustu viku um samráð við utanríkismálanefnd varðandi þann fund og ég ítreka þá skoðun mína sem þar kom fram að það sé eðlilegt og ég tel fullvíst að það sé fullur vilji hæstv. utanríkisráðherra að koma þannig verklagi á að utanríkismálanefnd fái fyrir svo stóra fundi sem þennan kynningu á stefnum og þeim málefnum sem rædd verða á slíkum fundum.

Mér fannst fundurinn í Búkarest um margt stórmerkilegur, ekki síst vegna þeirra aðildarumsókna fyrrum ríkja austurblokkarinnar, sem hér hafa verið dálítið til umræðu, sem tókst að koma í ágætisfarveg þrátt fyrir ákveðinn ágreining eða áherslumun innan bandalagsins um það mál. Ég hef líka lýst þeirri skoðun minni hér áður og tilheyri því væntanlega einhverjum sértrúarsöfnuði eða trúarflokki að mati hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar ég tel að við eigum að bjóða þessar þjóðir sem sækjast eftir aðild velkomnar í Atlantshafsbandalagið uppfylli þær þau skilyrði sem sett eru fyrir aðild að því.

Hv. þingmaður kallar það að fylgja blint bandarískri harðlínustefnu en ég get einfaldlega ekki skilið hvernig hann fær það út vegna þess að þarna er um að ræða þjóðir sem máttu þola áratugakúgun og harðræði sovétmanna og þær þyrstir í að tilheyra samfélagi vestrænna lýðræðisríkja og sjá þess vegna aðild að „klúbbnum“ eins og hann kallar aðild að Atlantshafsbandalaginu sem leið til að styrkja og efla þjóðir sínar. Ég fór sjálf til Georgíu á vegum NATO-þingsins í haust sem leið og ég sá glögglega í þeirri heimsókn hversu sterkt þeir sækjast eftir aðild og hvað þeir hafa lagt mikið á sig til að uppfylla þau skilyrði sem sett eru. Mér telst til að yfir 80% þeirra skattgreiðenda sem hafa verið spurðir þar séu hlynntir aðild. Ég ítreka því enn og aftur að ég get ekki séð bandaríska harðlínustefnu eða einhvers konar harðlínustefnu út úr því að ætla sér að samþykkja aðildarferli slíkrar þjóðar. Stuðningurinn er að vísu minni meðal almennings í Úkraínu en þar fara lýðræðislega kjörin stjórnvöld í landinu fyrir þessari stefnu og ég tel rétt að við virðum þau lýðræðislegu stjórnvöld og ákvarðanir þeirra.

Aftur að Búkarest-fundinum. Afganistan var að sjálfsögðu rætt þar enda langumfangsmesta aðgerð og verkefni Atlantshafsbandalagsins. Það kemur skýrt fram í ályktunum og fréttaflutningi af fundinum hversu mikil samstaða ríkir meðal bandalagsríkjanna um það verkefni og það kom líka vel fram í máli hæstv. utanríkisráðherra. Ég tek heils hugar undir þau sjónarmið sem komu fram í ræðu hennar varðandi Afganistan. Ég er algjörlega sammála því að það sé ekki valkostur, hvorki fyrir alþjóðasamfélagið né fyrir Ísland, að hlaupast á brott frá því verkefni í miðjum klíðum. Framlag okkar Íslendinga, þótt smátt sé á alþjóðamælikvarða, skiptir máli og ég tel rétt sem er verið að gera í utanríkisráðuneytinu að við einbeitum okkur að þeim sviðum sem við erum góð í. Af nógu er að taka í slíkum verkefnum. Ég er líka ánægð með þá starfsáætlun sem boðuð er í skýrslunni og ráðherra vék að um stuðning við friðar- og uppbyggingarstarfið í Afganistan. Ég tel mjög mikilvægt að stefna okkar þarna til framtíðar sé skýrt mörkuð og menn vinni sérstaklega að þeim verkefnum sem við gerum best, eins og ég sagði áðan, og þannig getum við komið afgönsku þjóðinni best til aðstoðar. Ég er líka hlynnt þeirri samvinnu sem boðuð er við hin Norðurlöndin á þessu sviði og tel að það geti orðið mjög farsælt samstarf.

Virðulegi forseti. Af nógu er að taka í þessari skýrslu en tíminn er naumur. Ég vil því að lokum fara örstutt yfir í viðskiptamálin. Ég tók eftir því í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að hún talaði um fyrirhugaðan fund sinn með utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Condoleezzu Rice, næstkomandi föstudag og þar ætti m.a. að ræða viðskiptasamstarf þjóðanna, ef ég heyrði rétt. Ég fagna því sérstaklega vegna þess að það verður að viðurkennast að á umliðnum árum hafa öryggis- og varnarmál tekið upp mikinn tíma af samskiptum þessara tveggja ríkja. Ég er sannfærð um að þar sé ómæld tækifæri að hafa til að gera enn betur í viðskiptum milli þessara ríkja.

Ég er mjög ánægð með að sjá það í skýrslu hæstv. ráðherra á blaðsíðu 55 að þar er talað um að stefnt sé að samkomulagi um vegabréfsáritanir fyrir Íslendinga sem eiga regluleg viðskiptaerindi til Bandaríkjanna og þá sem teljast til lykilstarfsfólks og fjárfesta. Ég veit það frá fyrri störfum mínum fyrir Útflutningsráð í Bandaríkjunum fyrir ótrúlega mörgum árum síðan að þetta var mikilvægt atriði þá og stíft sótt af íslenskum fyrirtækjum. Ég fagna því að unnið sé að lausn þess máls sem okkur tókst ekki að leysa á þeim tíma og það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu þess.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði er af mörgu að taka og ég þakka enn og aftur fyrir þessa fínu skýrslu og þá góðu umræðu sem hér hefur farið fram um utanríkismálin. Ég fagna því að hún hefur verið málefnaleg og að farið hefur verið vel yfir helstu atriðin sem brenna á okkur á alþjóðavettvangi.