135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[15:57]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þá málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram um skýrslu mína um utanríkismál til þingsins. Eftir að hafa hlustað grannt á umræðuna í dag og líka á það hvernig hér er tekið til orða þá finnst mér eins og myndast hafi ákveðin þverpólitísk samstaða um það í þinginu að Ísland eigi að ástunda virka utanríkisstefnu. Við eigum að láta alþjóðamálin til okkar taka, við eigum ekki bara að vera í viðbragðsstöðu, við eigum líka að hafa frumkvæði í þessum málum. Með öðrum orðum: Við eigum að vera virk í utanríkisstefnu okkar og á alþjóðavettvangi. Ég tel mjög ánægjulegt að þessi samstaða hafi þróast og að sammæli sé um það milli allra stjórnmálaflokka á Alþingi. Ég tel að þetta sé hin eina rétta afstaða sem við eigum að hafa, þetta skipti okkur verulegu máli og sé mikið hagsmunamál fyrir íslenskt samfélag að við séum mjög virk.

Þá kem ég að þeirri setningu sem hv. þm. Bjarni Harðarson var að spyrja um áðan um að efnahagsmál og alþjóðamál væru eitt og sama verkefnið. Það sem er átt við með því er nákvæmlega þetta: Það sem er að gerast á alþjóðavettvangi hefur bein áhrif á efnahagsmál okkar. Þar af leiðandi verðum við alltaf að vera vakandi gagnvart alþjóðamálunum vegna þess að við finnum fyrir því sem er að gerast á alþjóðlegum mörkuðum á okkar eigin buddu frá degi til dags eins og við höfum orðið svo vel áskynja á undanförnum vikum og mánuðum. Það er merkingin í þessari setningu í ræðu minni.

Hér hefur auðvitað margt verið rætt og ég hef lítinn tíma til þess að fara yfir það en ég vil samt nefna nokkur atriði. Þingmenn hafa gagnrýnt, m.a. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Kristinn H. Gunnarsson, að það hefði verið skortur á samráði við utanríkismálanefnd fyrir NATO-fundinn í Búkarest. Þessi gagnrýni finnst mér algerlega réttmæt af hálfu þingmanna. Að sjálfsögðu hefði átt að halda fund fyrir fundinn í Búkarest með utanríkismálanefnd og fara yfir málin en ég ætla að segja það mér til málsbóta hér að þingið var í fríi. Það var hlé á þingstörfum frá 14. til 30. mars og ég hygg að það hafi nokkuð spilað inn í þetta því að síðan komu mánudagur og þriðjudagur og svo vorum við farin utan á miðvikudegi. En þetta er alveg réttmæt gagnrýni, við úr utanríkisráðuneytinu hefðum að sjálfsögðu átt að koma og fara yfir efni fundarins í utanríkismálanefnd. Ég tek bara mið af þessari gagnrýni.

Hins vegar kom fram m.a. í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að á fundinum í Búkarest hefðu íslensk stjórnvöld verið að fylgja harðlínustefnu Bandaríkjanna um stækkun NATO til austurs í andstöðu við nágranna. Mér fannst eiginlega enn þá endurspeglast í ræðu hans þessi gamla skipting heimsins upp í vestur og austur, Bandaríkin og svo Rússland og það væru til einhver áhrifasvæði sem menn ættu ekki að fara allt of nærri vegna þess að einhvers konar samkomulag væri um hver ætti hvað í þessum efnum.

Við fylgdum ekki neinni harðlínustefnu í þessu sambandi. Það sem mér fannst vera nærtækast þegar ég hugsaði um þessi mál var sjálfsákvörðunarréttur þjóða. Það er grundvallaratriði hjá okkur að virða lögmætan sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Það sem NATO stóð andspænis varðandi Úkraínu og Georgíu var fyrst og fremst spurningin um hvort þessi ríki uppfylltu þær kröfur sem gera þarf um lýðræðislega stjórnarhætti í löndum áður en þeir gerast aðilar að NATO. Mér finnst ekki að það sé hægt að taka afstöðu til þessa máls út frá því að það sé hugsanlega í andstöðu við einhverja nágranna þessara ríkja vegna þess að ríkin hafa sjálf ákvörðunarrétt í málinu.

Þá kom það fram í máli hv. þingmanns að þarna hefðum við, ég og forsætisráðherra, fagnað sérstaklega uppsetningu eldflaugavarnakerfis Bandaríkjanna í Evrópu og spurði hann hvort það væri til góðs. Menn væru að færa sig inn í vígbúnaðarkapphlaupið. Í Búkarest var einungis tekin ákvörðun um að þróa þessa umræðu áfram, að afla frekari upplýsinga og skila skýrslu um málið á leiðtogafundi bandalagsins á næsta ári. Jafnvel á þeim fundi er ekki fyrir séð að teknar verði pólitískar ákvarðanir um hvort ráðist skuli í gerð slíks varnarkerfis af hálfu NATO vegna þess að það eru auðvitað skiptar skoðanir um þetta á vettvangi NATO. Það er ekkert algert sammæli um þetta á vettvangi NATO, ég held að þingmaðurinn geri sér ekki alveg grein fyrir því. Ég get viðurkennt að ég gerði mér ekki grein fyrir því hversu opinskáar og hreinskiptar umræður eru í raun og veru á vettvangi NATO og hvað fulltrúar þjóðanna sjá þar oft mismunandi sjónarmið. Niðurstaðan í því máli liggur ekki fyrir.

Varðandi stækkun NATO vil ég líka segja að ég hefði haldið að stækkun NATO í Evrópu þar sem æ fleiri Evrópuríki gerast aðilar að NATO væri einmitt til að styrkja Evrópuvæðingu NATO. Það ætti þá að vera þeim fagnaðarefni sem telja að Bandaríkin séu of áhrifamikil og of sterk á hinu alþjóðlega sviði. Það má segja að þarna sé ákveðin Evrópuvæðing í gangi sem við ættum að fagna.

Það kom fram í máli Bjarna Benediktssonar að fríverslunarsamningar við Kanada og Indland gætu falið í sér stórkostleg tækifæri og það er alveg rétt. Við þurfum að vera vakandi fyrir öllum tækifærum sem gefast til fríverslunarviðræðna vegna þess að þær taka mjög langan tíma. Ég hjó eftir því að ýmsum þótti mjög sérkennilegt að við værum að gera einhvern sérstakan fríverslunarsamning við Egyptaland, ekki væru mikil viðskipti við Egyptaland núna og af hverju væri þá verið að gera slíkt. Málið er auðvitað að það er mikilvægt að gera samninga áður en viðskiptatækifærin koma eða menn eru komnir út í viðskiptin. Ef menn ætla sér að bregðast við og gera fríverslunarsamninga þegar viðskiptasamningar eða sambönd eru komin á og orðin útbreidd, er það dálítið seint vegna þess að það tekur svo langan tíma að vinna í þessum málum.

Hv. þingmaður lagði áherslu á Schengen-vegabréfsáritanir, að sendiráðin ættu að geta sinnt þeim og ég tek undir það. Ég tel að það sé mikilvægt. Við fáum talsvert mikið af umkvörtunum frá útlendingum og Íslendingum sem eru að sækja um áritanir fyrir m.a. starfsfólk og geta ekki fengið þær í sendiráðum okkar í viðkomandi löndum.

Hv. þm. Magnús Stefánsson spurði um Íslendinginn í Færeyjum, hvort það hefði komið til kasta ráðuneytisins. Það hefur ekki komið beinlínis til kasta ráðuneytisins en mér er kunnugt um að sendiherra okkar í Færeyjum hefur eitthvað verið tengdur þessu máli. Ég vil bara segja að ef þarna er um einhver brot á réttindum þessa einstaklings að ræða þá eigum við að sjálfsögðu að láta það mál til okkar taka. Ég þekki það ekki svo vel að ég geti nákvæmlega sagt til um það en ég veit að sendiherrann í Færeyjum hefur haft einhver afskipti af málinu.

Það kom hér fram, og mér finnst það líka ánægjuefni, að það væri nokkuð víðtæk samstaða um að við ættum að halda áfram því verkefni sem hafið er í Afganistan. Ég hef lýst skoðun minni í því efni og tel að við eigum að gera það, alveg tvímælalaust. Ég veit að vísu að það er ekki afstaða vinstri grænna að við eigum að vera í Afganistan og taka þátt í því verkefni. Vísað er til þess að við hefðum verkefni að vinna annars staðar. Vissulega eru verkefnin ærin í heiminum og víða hægt að taka til hendinni en alþjóðasamfélagið hefur ákveðið að láta þetta verkefni til sín taka. Þarna eru 40 ríki sem taka saman höndum um að tryggja öryggi og uppbyggingu í Afganistan og ég fæ ekki séð nein rök til þess að við öxlum ekki ábyrgð með öðrum heldur skerumst úr leik á þessum stað. Eitt af því sem menn ættu að hafa í huga ef þeir vilja ekki sjá aðrar hliðar á því máli er að þetta er fátækasta ríki veraldar sem þarna er um að ræða. Aðeins af þeim sökum einum ættum við að láta þessi mál til okkar taka. Þar að auki tel ég að við höfum heilmikið fram að færa í Afganistan (Forseti hringir.) og við sjáum árangur af verkum okkar.