135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[16:08]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þau svör sem hér bárust og ég er feginn að það hafi ekki verið ætlun utanríkisráðherra að tala um að afstaða okkar í alþjóðamálum eigi að fara eftir hagsmunum okkar í efnahagsmálum. En ég hefði þó viljað að hér væri kveðið fastar að orði í máli hæstv. utanríkisráðherra vegna þess að tilvitnaða setningu sem ég las upp áðan má svo hæglega misskilja með þessum hætti að við ætlum, líkt og svo margar þjóðir hafa gert, að láta afstöðu okkar í utanríkismálum og afstöðu til alþjóðamála ráðast af eigin hag. Ég held aftur á móti að framlag okkar Íslendinga til utanríkismála gæti svo hæglega komið fram með miklu hlutlausari hætti, bæði vegna þess að við stöndum í rauninni vel með hagkerfi okkar og varðandi stöðu okkar í utanríkisviðskiptum.

Hin spurningin til hæstv. utanríkisráðherra varðar afstöðu okkar til Tíbets. Getur sú þróun sem hafin er þar núna ekki breytt afstöðu okkar? Þurfum við ekki ef til vill að endurmeta okkar afstöðu til yfirráða Kínverja yfir Tíbet? Ég sá að hv. formaður utanríkismálanefndar var hér í salnum rétt áðan og er kannski nærhendis. Ef hann heyrir mál mitt kalla ég einnig eftir svörum hans við þeirri spurningu.