135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[16:19]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta með sjálfsákvörðunarrétt þjóða er náttúrlega komið út í orðhengilshátt eins og umræðan hefur þróast af hálfu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Við getum haft á því skoðanir hvort viðurkenna eigi sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt tiltekinna þjóða, Kosovos eða Tíbets, en þær eru ekki orðnar sjálfstæðar og fullvalda með sjálfsákvörðunarrétt eins og Georgía og Úkraína. Sá er munurinn.

Georgía og Úkraína óska eftir því að fara inn í aðlögunarferli að NATO, ekki ganga inn í það heldur fara inn í þetta aðlögunarferli NATO sem er með þá stefnu að vera opið gagnvart lýðræðisríkjum í Evrópu. Þá er eðlilegt að menn taki því jákvætt eins og gert var í Búkarest.

Varðandi ályktun NATO-þingsins þá er það svo, ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lítur svo á að þar hafi þetta allt saman verið blessað og nú sé ekkert annað eftir en framkvæma þessa eldflaugaáætlun, að þá væri heldur illa komið fyrir félögum hans í Noregi. Ég veit ekki betur en að í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar, sem systurflokkur hans í Noregi á aðild að, sé fyrirvari varðandi þessar eldflaugaáætlanir í Evrópu. Þeir hafa væntanlega ekki litið svo á að þeir blessuðu allar þessar áætlanir og ekkert væri eftir nema að segja bara amen eftir efninu.