135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[17:02]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Álfheiðar Ingadóttir um ráðstefnu þá sem til stendur að halda um öryggismál á norðurslóðum á næsta ári, vildi ég gera athugasemd við þá fordæmingu sem kom fram í máli hennar á því að þessi ráðstefna verði haldin hér í samvinnu við Atlantshafsbandalagið. Það er einfaldlega svo, þótt sumir eigi erfitt með að horfast í augu við það, að Atlantshafsbandalagið er lýðræðisleg alþjóðastofnun, byggð upp af lýðræðisríkjum sem taka þar þátt af fúsum og frjálsum vilja. Þessi lýðræðisríki hafa ekki hernaðarmarkmið með því starfi heldur varnir eigin svæðis og öryggi í Evrópu. Þau hafa sammælst um varnarsamstarf til að draga úr viðsjám í álfunni og það hefur tekist afar vel síðustu 50 ár. Aðildarríkin hafa ekki lengur fullt forræði sjálf á sínum eigin vörnum heldur hafa ákveðið að samþætta varnirnar hvert með öðru til þess líka að skapa ekki ógn hvert gagnvart öðru.

Mér er það algerlega hulin ráðgáta af hverju það er slæmt að Atlantshafsbandalagið, sem hv. þingmaður virðist halda að sé með hala, klaufir og horn, fjalli um öryggi og hættur á norðurslóðum. Hlýtur það ekki að vera hagur okkar allra að Atlantshafsbandalagið horfi til þeirra aðstæðna sem hér eru og meti þær þannig að við getum rætt það líka á vettvangi Atlantshafsbandalagsins hvaða hættur það eru sem kunna mögulega að steðja að okkur? Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti áðan á hættur t.d. af umferð olíuskipa. Það er ýmislegt annað sem kann að valda okkur hættu. Hvað er að því að ræða það á vettvangi Atlantshafsbandalagsins?