135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[17:06]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hérna er ýmislegt úr lagi fært. Það er ekki fyrst og fremst verkefni NATO, svo því sé svarað strax, að munda byssur. Verkefni Atlantshafsbandalagsins er að vera sameiginlegur vettvangur ríkja til að ræða öryggismál sín og finna lausnir við þeim hættum sem steðja að öryggi ríkjanna. Þetta eru upplýst lýðræðisríki og mér finnst ansi sérkennilegt að halda fram þeim málflutningi að Atlantshafsbandalagið sé óalandi og óferjandi í alþjóðasamstarfi en allar aðrar alþjóðastofnanir þar sem sömu ríki eiga aðild að séu einhvern veginn allt öðruvísi. Hvað er það sem gerir Danmörku og Noreg svona hræðileg þegar þau setjast við borðið hjá Atlantshafsbandalaginu en gerir þau svo góð til samstarfs þegar þau eru á norrænum vettvangi, í Evrópuráðinu eða alls staðar annars staðar? Þetta eru sömu ríkin þegar öllu er á botninn hvolft.

Mér finnst mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að við nýtum fjölþjóðlegt samstarf til að fá samstarfsríki okkar til að líta á þær hættur sem að okkur steðja og sem kunna að vera annars eðlis en steðja að öðrum ríkjum. Atlantshafsbandalagið á að sjálfsögðu í viðbúnaði sínum að taka mið af hættunum sem steðja að öllum aðildarríkjunum, ekki bara sumum. Vonandi getum við síðan rætt hvaða atriði það eru hér sem kalla á viðbrögð við hættum. Vonandi kemur einhvern tíma sá dagur að engar hættur eða ógnir steðji að Íslandi en eins og staðan er í dag finnst mér einboðið að við höldum hér ráðstefnu og ræðum um það með bandalagsþjóðum okkar hvaða hættur það eru. Þannig getum við þá jafnframt reynt að stuðla að upplýstari umræðu um það á alþjóðavettvangi.