135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[17:21]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá ræðu sem hér var flutt af hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur. Ég get tekið undir flest það sem þar var sagt og margt var þar mjög grípandi og skemmtilega fram sett.

En ég sakna þess í þessari umræðu, og hef raunar kallað eftir því í dag, að fram komi sjónarmið varðandi málefni Tíbets sem lítið hefur verið fjallað um í skýrslu utanríkisráðherra. Ég er ekki alls kostar sammála því mati sem fram kom í svari utanríkisráðherra áðan, að þetta mál sé ekki til umræðu vegna þess að andlegur og stjórnmálalegur leiðtogi Tíbeta hafi ekki gert skilyrðislausa kröfu um sjálfstæði. Það er verið að tala um réttindi þessarar þjóðar, burt séð frá því hvort sú umræða eigi að enda í fullum aðskilnaði frá Kínverjum eða ekki.

Ég kalla eftir því hjá hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur hvort hún sé sammála því mati sem kemur fram í málflutningi utanríkisráðherra, bæði nú og eins hér fyrr, þegar hæstv. utanríkisráðherra lýsti því yfir að þeir atburðir sem nú eiga sér stað í Tíbet — og raunar eru málefni Tíbets í töluverðri gerjun, ekki bara þar heldur um allan heim eins og við sjáum af þeim mótmælum sem nú eiga sér stað á ferð Ólympíukyndilsins — geti breytt afstöðu okkar til þeirrar ófrávíkjanlegu kröfu Kínverja að þeir hafi öll yfirráð yfir Tíbet.

Ég held að það sé brýnt að við fylgjum þeim meginkjörorðum sem hv. þm. minntist á hér í lok ræðu sinnar, um mannréttindi og frelsi. Í anda þess þurfum við að styðja þjóð í vanda, þjóð eins og Tíbeta sem hafa lengi barist fyrir frelsi við vægast sagt grimma (Forseti hringir.) kommúnistastjórn.