135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[17:43]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af þessari ræðu hv. þingmanns þá held ég að hann sé ekki búinn að átta sig að fullu og öllu á því að Atlantshafsbandalagið er ekki hernaðarbandalag per se. Það eina sem Atlantshafsbandalagið er er sammæli þeirra þjóða sem þar sitja. Ef hann telur að það sé hernaðarbandalag þá eru það þau ríki sem eru þá í einhverjum hernaði. Markmið Atlantshafsbandalagsins hefur frá upphafi verið sjálfsvörn aðildarríkjanna. Ef hann telur að frá því hafi verið hvikað á seinni árum þá hlýtur maður að spyrja: Voru þá betri rök fyrir aðild að Atlantshafsbandalaginu hér áður fyrr?

Ég undirstrika að þau verkefni sem Atlantshafsbandalagið sinnir núna á átakasvæðum byggja á umboði frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Afganistanverkefnið, sem hv. þingmanni virðist í nöp við. Það er að beiðni Sameinuðu þjóðanna sem Atlantshafsbandalagið sinnir því verki. Atlantshafsbandalagið og aðildarríki þess hafa engan áhuga á útþenslu eða að leggja undir sig önnur lönd. Og þegar gagnrýnendur Atlantshafsbandalagsins láta að því liggja þá er það beinlínis rangt. Atlantshafsbandalagið hefur tekið að sér verkefnið í Afganistan í umboði Sameinuðu þjóðanna.

Ég vildi gjarnan fá svar frá þingmanninum við spurningunni sem ég bar fram áðan: Er hann andvígur því að lýðræðisríki hafi heimild til að beita vopnavaldi sér til varnar? Ég er ekki andvígur því. En mér finnst stundum að hv. þingmaður og aðrir þingmenn vinstri grænna hræri öllu saman í einn graut hvort sem það er varnarviðbúnaður lýðræðisríkja eða árásarstríð Bandaríkjamanna. Mér finnst að menn eigi að greina þar á milli. Það finnst mér þingmaðurinn ekki gera með fullnægjandi hætti.