135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[17:53]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf gaman þegar málflutningi manns eru gefnar einkunnir. Hæstv. ráðherra hefur áhyggjur af því að við séum, sum, föst í átakahefðum kalda stríðsins. Það á sennilega að lesa það á milli línanna að það sé hins vegar hæstv. utanríkisráðherra ekki, hún og hennar málflutningur sé sérstaklega framsækinn og nýmóðins. Það er þá væntanlega t.d. sérstaklega framsækið og nýmóðins að vera með fjöðrum yfir NATO eins og hæstv. ráðherra er og boða aukna þátttöku okkar og aukið framlag á öllum sviðum undir merkjum NATO. Og það er einmitt hið nýja NATO. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra, það er út af fyrir sig nýmóðins því að þetta er hið nýja NATO sem var endurskipulagt á tíunda áratugnum að forskrift Bandaríkjamanna, tekin upp sú stefna að NATO gæti látið til sín taka utan svæðis aðildarríkjanna kallað „Out of Area“ eða utansvæðastefna og hún hefur birst okkur í verki núna með þátttöku NATO í beinum hernaðaraðgerðum í fjarlægum heimshlutum.

Hvers vegna viljum við endurmeta þátttöku okkar í Afganistan? Bandaríkjamenn með stuðningi Breta réðust á Afganistan undir lok árs 2001. Árið 2004 komu þeir verkefninu yfir á NATO. Nú er árið 2008 og við vitum hvernig ástandið er. Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna fer um heiminn og ögrar bæði NATO-ríkjum og öðrum ríkjum til að auka þátttöku sína og senda fleiri liðsmenn til hernaðaraðgerðanna í Afganistan. Ísland er ekki með her og ætlar vonandi ekki að koma sér upp her. Ný lög um íslensku friðargæsluna ganga algjörlega frá því að öll okkar þátttaka skal vera borgaraleg. Liðsmenn okkar eru engu að síður alvopnaðir undir stjórn NATO sem stendur í hernaðaraðgerðum í Afganistan. Þetta er veruleiki málsins. (Forseti hringir.) Þetta teljum við ekki samrýmanlegt og þess vegna eigum við að beita kröftum okkar þar sem þörf er fyrir þá (Forseti hringir.) á þeim forsendum sem eru í samræmi við okkar hefðir og lög.