135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[17:58]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt. Balkanskaginn er enn að mörgu leyti í sárum eftir styrjaldarátökin þar. Ástandið er sennilega verra í Palestínu í deilum Ísraela og Palestínumanna en það hefur nokkurn tíma verið. Í Írak geysar borgarastyrjöld. Í Afganistan nokkurn veginn það sama. Í Afríku er á fleiri en einu og fleiri en tveimur svæðum þannig ástand að því er líkt við þjóðarmorð eða þjóðernishreinsanir. Með öðrum orðum, þetta gengur sem sagt ekkert sérstaklega vel. Aðferðafræði hernaðarhyggjunnar sem búið er að reyna býsna lengi í hinum karlstýrða heimi er ekki að skila okkur miklum árangri. Og ætli það sé þá ekki þess virði að velta því fyrir sér hvort til séu einhverjar gæfulegri leiðir en þær einar að trúa stálinu og skrifa upp á hernaðarhyggjuna?

Mig undrar það nokkuð að hæstv. utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar og jafnaðarmannaflokks, sem svo kallar sig, hér á Íslandi, hafi ekki að minnsta kosti opnari viðhorf gagnvart því að auðvitað má ekki missa sjónar á þeirri ógæfu sem vígbúnaðurinn, vígbúnaðarkapphlaupið, sóunin og hernaðarátökin eru mannkyninu. Þetta er að sjálfsögðu langstærsti þröskuldur í vegi þess að við getum fært fjármuni og orku yfir í verkefni sem þarf að takast á við til að tryggja varanlegan frið og stöðugleika. Takast á við umhverfisvá og annað slíkt í heiminum. Hernaðarhyggjan og hernaðarhugsunin og sóunin sem í hana fer er auðvitað mesti bölvaldurinn í þeim efnum drifin áfram af hernaðar- og iðnaðarhagsmununum sem á bak við liggja. „The Military Industrial Complex“ heitir það gjarnan í umræðum í Bandaríkjunum. Mér finnst allt of lítið fara fyrir því að hæstv. utanríkisráðherra — ef það ættu að vera innstæður fyrir einhverjum nýjum og mýkri áherslum í utanríkismálum hjá okkur á Íslandi (Forseti hringir.) um þessar mundir — sé með gagnrýnni hug gagnvart þessum vítahring sem við erum áfram föst í og NATO-væðingarstefna (Forseti hringir.) hennar skrifar auðvitað upp á.