135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[18:04]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér á Íslandi var her í landinu í tæp 70 ár. Nú er sú staða ekki uppi lengur heldur er þetta herlaust land en við erum aðilar að Atlantshafsbandalaginu sem er varnarbandalag þessara 26 lýðræðisríkja (Gripið fram í.) á Vesturlöndum. Í þeirri aðild felst ákveðin trygging sem er í 5. gr. samningsins um að það er einn fyrir alla og allir fyrir einn. Ef einhver vá steðjar að Íslandi, hernaðarleg vá fyrst og fremst, er í þessu fólgin ákveðin trygging. Við getum sagt að þetta séu okkar almannavarnir við verstu mögulegu aðstæður og það þarf stundum að æfa almannavarnir, ella koma þær ekki að notum.

Þetta er hins vegar ekki eina ógnin sem að okkur steðjar eða kannski sú mesta eða hættulegasta. Það er auðvitað fleira sem við þurfum að búa okkur undir. Meðal annars þess vegna er nú verið að vinna hættumat á vegum utanríkisráðuneytisins til þess að við getum metið hvar við þurfum að hafa viðbúnað og hvernig.

Varðandi friðargæsluna, að hún sé dulbúin sem þróunaraðstoð: Það er enginn dulbúningur á þeirri þróunaraðstoð sem við veitum í Afganistan. Þetta er þróunaraðstoð og það mundi hv. þingmaður vita ef hún kynnti sér það. Hún fellur undir þá skilgreiningu sem DAC-þróunarnefnd OECD hefur, á þróunaraðstoð þannig að það er enginn dulbúningur.

Þingmaðurinn sagði hér áðan að það væru næg verkefni utan hernaðarátaka til að sinna mannúðaraðstoð og við ættum þess vegna að fara út úr Afganistan. Mér finnst það kaldranaleg afstaða sem í því felst gagnvart því fólki sem í Afganistan býr vegna þess að það er bara sérgæskusjónarmið sem endurspeglast í þessum orðum.