135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[18:26]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir greinargóða skýrslu um utanríkismál sem hér hefur verið til umræðu. Í ágætri ræðu sem hæstv. utanríkisráðherra flutti í upphafi talaði hún um þursana sem fóru ekki úr fjallinu, vék að því með góðum hætti. Að sjálfsögðu tökum við undir með hæstv. utanríkisráðherra, að við eigum ekki að vera eins og þursarnir heldur taka þátt í fjölþjóðlegu samstarfi. Um það er ekki ágreiningur. En það er mikilvægt að við sníðum okkur stakk eftir vexti. Ég tel að við rekum of viðamikla og dýra utanríkisþjónustu. Ég tel brýnt að á sama tíma og við gætum hagsmuna okkar á alþjóðavettvangi þá forgangsröðum við og skiptum okkur af þeim málum sem mestu skipta íslenska þjóð en látum hjá líða að reyna að gína yfir öllu eins og við værum heimsveldi, sem við að sjálfsögðu erum ekki. Við verðum það ekki. Kostnaður og umsvif utanríkisþjónustunnar eru komin yfir eðlileg mörk og þarf að draga úr þeim kostnaði.

Þrátt fyrir að ég bendi á þetta dreg ég ekki úr mikilvægi þátttöku okkar í fjölþjóðlegu samstarfi. Ég tek undir að með þátttöku í alþjóðastarfi erum við ávallt, í hvert skipti sem við gerum samning, að deila fullveldi okkar með þeim sem við förum í samstarf með. Við erum ekki að afsala eða framselja fullveldi. Við erum að deila því með öðrum. Það er mikilvægt að kunna skil á þessu. Þannig kusum við að deila fullveldi okkar með því að ganga í Sameinuðu þjóðirnar, gerast aðilar að NATO en einkum með því að samþykkja samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Ég tek undir með utanríkisráðherra að því leyti að stigið hefur verið mikilvægt skref í Evrópusamstarfinu og vissulega þurftu Íslendingar að gera ákveðnar breytingar á löggjöf sem voru til bóta. Löggjöf okkar í neytendamálum var úrelt. Við þurftum að gera breytingar á henni þegar við gengum í Evrópska efnahagssvæðið. Löggjöf okkar í samkeppnismálum svaraði ekki kalli tímans og löggjöf okkar á sviði viðskipta var úrelt. Á grundvelli reynslunnar af þátttöku okkar í Evrópusamstarfinu, með þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu, hljótum við að skoða hvað getur verið Íslandi hagfelldast í samstarfi við erlend ríki, einkum vinaþjóðir okkar í Evrópusambandinu, vinaþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu og frændur okkar og vini í Norðurlandasamstarfinu. Að sjálfsögðu þurfum við á hverjum tíma og skoða og endurmeta stöðu okkar í utanríkismálum og samstarfi við aðrar þjóðir, með hagsmuni íslensku þjóðarinnar fyrir augum. Þannig hljótum við jafnan að fylgjast með þróun innan Evrópusambandsins og skilgreina fyrir okkur og okkar hagsmuni í hve nánu faðmlagi við viljum vera við Evrópusambandið og hvort það þjónar tilgangi að skilgreina hugsanleg samningsmarkmið komi til þess að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu.

Þá er ekki síður mikilvægt að skoða hvað hægt er að gera á grundvelli Evrópska efnahagssvæðisins með því að gera breytingar á þeim samningi. Spurningin er þar fyrst og fremst um hvort við getum á grundvelli þess samnings og samstarfs komist í myntsamstarf við Evrópu. Mér finnst satt að segja ólíklegt að Evrópusambandið mundi standa á móti því ef EES-ríkin kæmu sameiginlega að því máli. Komi til þess að við Íslendingar teljum okkur hagfelldast að tengjast Evrópusambandinu fastari böndum en við höfum gert til þessa, sækja hugsanlega um aðild að Evrópusambandinu, þá skiptir m.a. máli það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti á fyrr í umræðunni. Hann sagði, um hugsanleg samningsmarkmið varðandi Evrópusambandið, að forræði mála í kjarnamálum verði í okkar höndum varðandi samstarf við Evrópusambandið og menn eigi að halda áfram á þeirri braut til að fá lausn sem uppfylli þær forsendur. Þá sagði þingmaðurinn einnig að alþjóðasamstarf sé okkur lífsnauðsynlegt en við setjum okkar forsendur fyrir því. Þetta er kjarni málsins í sambandi við alþjóðasamstarf. Við verðum að skilgreina hverjir eru hagsmunir íslensku þjóðarinnar og verði það niðurstaða að það þjóni hagsmunum Íslands að tengjast Evrópusambandinu traustari böndum, sækja um aðild og fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið, þá hljóta íslenskir hagsmunir og íslensk sjónarmið að ráða því hvort við ákveðum að deila fullveldi okkar enn frekar með Evrópusambandinu en orðið er.

Virðulegi forseti. Ég var satt að segja óánægðastur með það sem hæstv. utanríkisráðherra sagði þegar hún vék að afstöðu okkar til málanna í Tíbet. Hæstv. utanríkisráðherra sagðist hafa gert sendiherra Kína grein fyrir því að Kínverjum beri að virða mannréttindi. Liggur ekki ljóst fyrir að Kínverjar hafa undirgengist að virða mannréttindi? En hvað erum við að tala um? Hvernig ætlum við Íslendingar að bregðast við ítrekuðum mannréttindabrotum Kínverja? Hvaða þátt ætlum við að taka í Ólympíuleikunum? Þess ber að geta að bæði Angela Merkel og Nikolas Sarkozy eru meðal þeirra sem þegar hafa ákveðið að fara ekki til Peking. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Íslendingar bregðast við því.

Á Fréttastofu Bylgjunnar og Stöðvar 2 í gær er frétt þar sem segir að helmingur Dana telji að stjórnvöld í Danmörku eigi að sniðganga opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Peking í sumar. Þar sagði enn fremur að menntamálaráðherra Dana, Brian Mikkelsen, íhugi að mæta ekki á hátíðina.

Friðsamleg barátta Tíbeta fyrir mannréttindum og sjálfstjórn á sér langa sögu. Kínverskir kommúnistar lögðu landið undir sig árið 1950 og þá voru drepin milli 400 þúsund manns og ein milljón. Núna er spurt: Hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera? Hvað vill íslenski utanríkisráðherrann gera til að styðja við mannréttinda- og sjálfstæðisbaráttu Tíbeta? Vill hún taka sömu afstöðu og Angela Merkel og Sarkozy hafa gert eða vill hún eingöngu friðsamleg samskipti við sendiherra Kína í teboðum og minna hann á að Kínverjum beri að fara að mannréttindum?

Málefni friðargæslunnar í Afganistan hefur töluvert borið á góma. Ég tek undir þau sjónarmið og skoðanir sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon hefur sett fram. Ég tel að við eigum sem allra fyrst að koma okkur frá því sem þar er að gerast. Við eigum ekkert erindi á þennan vettvang. Það er rangt að við látum eitthvað gott af okkur leiða þar. Á mörgum stöðum í veröldinni gætum við gert betur.

Hv. þm. Bjarni Harðarson gat um það í umræðunni áðan að Íslendingar hefðu viðurkennt rétt Ísraels að hluta yfir Vesturbakkanum. Ég veit ekki til að svo hafi verið gert. Ég veit ekki annað en að það liggi alveg fyrir að íslensk stjórnvöld hafi allan tímann talið að með sex daga stríðinu og innlimuninni þá hafi verið farið fram með óréttmætum hætti. Í því atriði mættum beita okkur mun ákveðnar, þ.e. fyrir réttindum Palestínumanna, sem hafa verið fyrir borð borin, þar sem mannréttindi eru misvirt og hernámslið Ísraelsmanna fer sínu fram hvað sem tautar og raular. Engin þjóð sem hefur misvirt jafnmargar samþykktir Sameinuðu þjóðanna frá stofnun Sameinuðu þjóðanna og Ísraelsríki, einmitt hvað varðar það að tryggja rétt, öryggi og líf Palestínuaraba. Það er fordæmanlegt. Okkur ber að fordæma það.

Þá vil ég minnast á það sem hv. þm. Guðfinna S. Bjarnadóttir gat um í umræðunni áðan. Ég var satt að segja mjög undrandi þegar hún sagði að mannréttindi og frelsi væru með breytilegum skilgreiningum. Þetta er rangt. Við höfum mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það liggur fyrir hvaða skilgreiningar eru þar notaðar og það er enginn ágreiningur um þær skilgreiningar. Hins vegar hafa ofbeldisöflin iðulega reynt að skilgreina hlutina með öðrum hætti en raunverulega er talað um. En mannréttindi og frelsi eru með ákveðnum skiljanlegum skilgreiningum. Það vita allir. Ég held því fram að á þeim tíma sem ég var í Sjálfstæðisflokknum hafi aldrei vafist fyrir nokkrum þingmanni flokksins að átta sig á því að mannréttindi og frelsi skilgreinum við með ákveðnum hætti. Ekki með breytilegum skilgreiningum, það er rangt.

Varðandi framboð Íslands til öryggisráðsins, sem ég hef ekki verið fylgjandi en lýsti því yfir við umræður um utanríkismál fyrr í vetur að miðað við aðstæður væri sjálfsagt að reyna að styðja þessa viðleitni stjórnvalda þegar svo langt væri komið, þá vil ég vil fá ákveðnar upplýsingar um hverjir styðji okkur. Styðja bandalagsþjóðir okkar í NATO framboð Íslands? Styður Þýskaland framboðið? Styður Frakkland framboðið? Styður Bretland framboðið eða Spánn og Ítalía, svo ég nefni helstu lönd í Evrópu? Mér finnst mikilvægt að við fáum upplýsingar um hvort okkar helstu vina- og nágrannaþjóðir styðja framboð Íslands til öryggisráðsins. Spurning er líka: Erum við að gera rétt með því að stríða í Afganistan á sama tíma og við sækjumst eftir því að komast í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna?