135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[18:36]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé mig tilneyddan að koma upp vegna orða hv. þm. Jóns Magnússonar um Vesturbakkann í Palestínu. Íslendingar hafa vissulega ekki viðurkennt yfirráð Ísraelsmanna yfir Vesturbakkanum en ég hygg að með því að viðurkenna rétt Ísraelsmanna til að hafa höfuðborg sína í Jerúsalem og með því að viðurkenna stjórnmálasamstarf við Ísrael eins og þeir draga þau mörk höfum við gengið ansi nærri því að viðurkenna yfirráð þeirra yfir hluta af því sem tilheyrði Vesturbakkanum, þ.e. þeim hluta sem er innan sveitarfélagamarka Jerúsalem. Þannig lærði ég þessi fræði a.m.k. þegar ég bjó þarna ytra fyrir aldarfjórðungi en kannski skjöplast mér eitthvað í minni og biðst ég þá forláts á því. En ég hygg þó að þetta sé með þeim hætti að við höfum að nokkru leyti viðurkennt þessi yfirráð og ég tel í rauninni að við höfum þar, eins og svo oft áður í samskiptum okkar við Ísraelsmenn, gengið fulllangt í að fallast á sjónarmið þeirra og komið fullstutt til móts við sjónarmið íbúa Vesturbakkans, Palestínumanna.