135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[18:50]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Komið hefur verið nokkuð víða við í umræðunni hér í dag og mér finnst hún hafa verið fróðleg og nokkuð djúp og skemmtileg á þeim sviðum sem helst eru í deiglunni á vettvangi utanríkismála á Íslandi í dag.

Töluverðu púðri hefur verið eytt í umfjöllun um NATO og kemur í sjálfu sér ekki mjög á óvart að það skuli vera skoðanaágreiningur við þingmenn Vinstri grænna bæði um verkefnaval og eins um framtíðarþróun Atlantshafsbandalagsins. Í því samhengi verð ég að segja að mér koma mjög einkennilega fyrir sjónir þau sjónarmið sem þeir hafa teflt fram í umræðunni í dag og varða inntöku nýrra ríkja.

NATO er einfaldlega fyrst og fremst varnarbandalag og fer ekki með stríði á hendur öðrum þjóðum. Við eigum að virða áhuga þjóða sem standa okkur nærri og hafa áhuga á að gerast meðlimir í þessu varnarbandalagi á lýðræðislegum grundvelli og bjóða þær velkomnar til að taka þátt á þeim lýðræðislegu forsendum sem NATO starfar.

Ég held að mikilvægt sé að hafa í huga í því samhengi það sem hæstv. utanríkisráðherra vakti athygli á í umræðunni í dag að fyrir okkar heimshluta hlýtur það að skipta máli líka að með þeirri stækkun sem átt hefur sér stað á bandalaginu á umliðnum árum er valdajafnvægið í bandalaginu að breytast dálítið á kostnað Bandaríkjamanna — fyrir þá sem hafa haft sérstakar áhyggjur af því.

Varðandi einstök verkefni þá höfum við í sjálfu sér rætt um þau margoft áður og þátttakan í Afganistan er meðal þess sem við höfum rætt áður í því sambandi. Ég held að það sé dálítið óheppilegt að mikill ágreiningur sé um það í þinginu hvar við störfum. Það virðist vera samhljómur um það meðal þingmanna og þvert á alla stjórnmálaflokka að við eigum að einbeita okkur þar sem við höfum mest fram að færa. Þar sem við höfum gert það höfum við að jafnaði skilað mjög góðum árangri. Dæmi um það eru ýmis friðargæsluverkefni eins og t.d. á sviði flugstjórnar og í rekstri flugvalla. Afganistan er eitt af stóru og mikilvægustu verkefnunum sem NATO er að sinna í dag og þar held ég að okkur hafi tekist ágætlega til við að senda vel þjálfað fólk til að liðsinna í þeim fjölmörgu verkefnum sem þar er við að glíma. Það er með engri sanngirni hægt að segja að með því séum við að taka þátt í einhverju hernaðarbrölti, það er verið að slíta hlutina fullkomlega úr samhengi með því.

Eftir stendur að við eigum að einbeita okkur að því að skilgreina, og við höfum verið að gera það, málaflokkana og það sem við höfum mest fram að færa og ég held að almennt séð hafi okkur tekist vel til með það. En eins og ég sagði í upphafi kemur mér það í sjálfu sér ekkert sérstaklega á óvart að ágreiningur skuli fyrst og fremst vera við þingmenn Vinstri grænna um þetta tvennt, framtíðarhorfur í NATO, stækkunin, og hins vegar verkefnavalið.

Varðandi samráð við þingið langar mig aðeins í lokin að segja að ég held að það væri til mikils að vinna ef aukið samráð mundi leiða til meiri samstöðu um stefnuna í utanríkismálum. Ég held að það sé til töluvert mikils að vinna að við tölum einum rómi og komum fram sem ein heild á alþjóðlegum vettvangi. Með því er ég ekki að segja að ólík sjónarmið geti ekki komist að en það er mikilvægt fyrir okkur að koma fram sem ein heild á alþjóðlegum vettvangi og ég held að við getum lært af öðrum þjóðum í því samhengi. Við ræddum þetta dálítið þegar utanríkismálanefnd heimsótti Norðmenn fyrir skemmstu. Ég fagna þess vegna því frumkvæði sem kynnt var í dag um sérstakan vettvang fyrir formenn flokkanna. Ég held að við ættum að halda áfram að skoða það hvernig megi auka samráðið á þessu sviði til að tryggja þessa samstöðu sem er mikilvæg fyrir okkur.