135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[18:57]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það kom mér ekki á óvart að þingmenn Vinstri grænna hefðu ákveðna sérstöðu í umræðunni um NATO og verkefnavalið. Þvert á móti. Ég taldi mig hafa komið því til skila að það hefði ekki komið mér á óvart.

Varðandi samráðið og samstöðuna. Þetta kemur einmitt líka inn á þætti eins og veru okkar í Atlantshafsbandalaginu og verkefni sem við tökumst á hendur þar. Þetta er spurning um það hvort við nálgumst umræðuna um NATO á þeirri forsendu að við erum þar inni og einbeitum okkur að því að ræða hvernig við getum þá best látið ljós okkar skína á þeim vettvangi, í hvaða farveg við eigum að beina kröftum okkar á þeim vettvangi í stað þess að ræða um það hvort við eigum að vera inni eða úti. Það er um slík grundvallaratriði sem ég held að væri mjög æskilegt að geta náð meiri samstöðu. Og það er þetta sem ég á við þegar ég segi að vonandi getur meira samráð og meiri samskipti á milli þingsins og framkvæmdarvaldsins á sviði utanríkismála orðið til þess að við reynum að hafa meiri samstöðu út á við og einnig í umræðunni og við eyðum ekki öllu púðrinu í grundvallaratriði sem við höfum með lýðræðislegum hætti tekið ákvörðun um að gera — að vera inni. Þá teldi ég að tíma okkar væri miklu betur varið í að ræða um hitt, þ.e. með hvaða hætti við tökum þátt í bandalaginu og hvar kröftum okkar er best fyrir komið þar. Þetta er það sem ég var að vitna til að maður hefði kannski aðeins lært af þegar maður lítur út fyrir landsteinana og sér menn gera m.a. í Noregi þar sem Sosialistisk Venstre-flokkurinn (Forseti hringir.) er þátttakandi í ríkisstjórn.