135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

fullgilding Palermó-samnings gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.

493. mál
[20:11]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég get í sjálfu sér fagnað því að fram er komin tillaga um fullgildingu Palermó-samningsins gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi. En það veldur mér verulegum vonbrigðum og ég var satt best að segja mjög undrandi þegar ég kom auga á að ekki stendur til að fullgilda bókanirnar þrjár og reyndar enga af bókununum við samninginn. Þrjár hafa þegar verið gerðar, tvær voru gerðar strax sama dag og samningurinn sjálfur, sú þriðja, sem er gegn ólöglegri framleiðslu á og verslun með skotvopn, hluta þeirra og íhluti, var undirrituð fyrir Íslands hönd rúmu ári síðar eða á árinu 2001.

Palermó-samningurinn er að sönnu mjög mikilvægur og eins og ég segi fagna ég því að það skuli standa til að fullgilda hann. En bókun um að koma í veg fyrir og refsa fyrir mansal, einkum kvenna og barna, sem Ísland undirritaði um leið og samninginn sjálfan 13. desember — ég hlýt að harma að hún skuli ekki einnig vera hér til staðfestingar og heldur ekki bókun gegn ólöglegum innflutningi fólks land-, sjó- eða loftleiðis sem einnig var undirrituð á sama tíma.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram, frú forseti, að unnið sé að undirbúningi fullgildingar þessara tveggja bókana og er m.a. til skoðunar, segir þar, hvort fullgilding þeirra kalli á lagabreytingar hér á landi.

Nú er það svo, frú forseti, að allt frá því að samningurinn var undirritaður af hálfu Íslands, 13. desember 2000, hefur verið eftir því gengið hér á Alþingi að hann yrði staðfestur og að bókunin, einkum mansalsbókunin, sem mikið hefur verið rætt um hér, yrði staðfest líka.

Fram kemur í þingtíðindum að strax í ársbyrjun 2001 svarar þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Sólveig Pétursdóttir, fyrirspurn frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og segir að verið sé að skoða það í ráðuneyti hennar hvernig hægt sé að koma þessum samningi í lög og verið sé að athuga hvaða breytingar þurfi að gera á íslenskum lögum til þess að hægt verði að staðfesta hann, fullgilda hann.

Hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason hefur ítrekað svarað þessari sömu spurningu á þann veg að verið sé að athuga hverju þurfi að breyta í íslenskum lögum. Í skýrslu starfshóps dómsmálaráðuneytis, sem ráðuneytið gaf út á árinu 2006 — starfshópurinn starfaði á árunum 2004–2006 og kynnti sér reynslu af mismunandi löggjöf um vændi, klámiðnað og mansal í Evrópu — kemur fram, frú forseti, á bls. 31, að í dóms- og kirkjumálaráðuneyti sé verið að fara yfir hvort og þá hvaða lagabreytinga sé þörf svo fullgilda megi þennan samning.

Nú er komið fram í apríl á árinu 2008 og enn segir hér að unnið sé að undirbúningi fullgildingar tveggja fyrstnefndu bókananna, þ.e. um mansal og ólöglegan innflutning fólks, og það sé til skoðunar hvort fullgilding þeirra kalli á lagabreytingar hér á landi. Ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst þetta algjörlega óforsvaranlegt, mér finnst þetta allt of langur tími. Ég skil ekki af hverju verið er að koma hér inn eftir allan þennan tíma, nú er apríl árið 2008, án þess að koma með tillögur um fullgildingu þessara tveggja bókana um leið. Ég óska eftir að fá skýringar á því frá hæstv. ráðherra.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvað líði fullgildingu á samningi Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali, sem undirritaður var í Varsjá í Póllandi 16. maí 2005 og Ísland undirritaði sama dag. Sá samningur gengur í rauninni skrefinu lengra hvað varðar ákvæði um verndun fórnarlamba en Palermó-bókunin um mansal. Þó að í íslensk lög, í hegningarlögin íslensku, hafi á árinu 2003 verið sett inn sérstakt refsiákvæði um mansal, í 227. gr. með lögum nr. 40/2003, þar sem refsing fyrir mansal getur numið allt að átta ára fangelsi, er það ekki nægilegt til að uppfylla ákvæði Palermó-samningsins um vitnavernd, um fórnarlambavernd og náttúrlega ekki heldur ákvæði þessara bókana og fyrri bókunarinnar sem ég nefndi um mansal.

Ég kalla eftir skýringum hæstv. ráðherra á því hverju þetta sætir.