135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

fullgilding Palermó-samnings gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.

493. mál
[20:19]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu, sem ég hefði kannski átt að gera í framsöguræðu minni áðan. Þessar bókanir fylgja ekki með í fullgildingunni og sú bókun sem ég tel að sé mjög brýn í þessu sambandi er mansalsbókunin sem hv. þingmaður kom inn á og sama má segja um mansalssamning Evrópuráðsins, að hann sé líka brýnn.

Ég get ekki svarað þeim spurningum sem lagðar voru fyrir mig, um hverju það sæti að þetta fylgi ekki með í fullgildingunni, þ.e. mansalsbókunin. Ég get ekki svarað því öðruvísi en svo að enn er beðið eftir svari frá réttarfarsnefnd um hvort þetta kalli á breytingar á réttarfarslögum. Ef lagabreytingar reynast nauðsynlegar, sem greinilega hefur verið mjög lengi til skoðunar, stefni ég að því að leggja fram þingsályktunartillögu um fullgildingu bókunarinnar á haustþingi.

Ég tel, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, að málið hafi verið það lengi til skoðunar að niðurstaða hljóti að fara að fást.