135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkja og Kanada.

543. mál
[20:40]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil bara koma hér upp í þessari umræðu um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA annars vegar og Kanada hins vegar, til þess að taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Bjarna Benediktssonar og formanns utanríkismálanefndar þar sem hann lýsti störfum þingmannanefndar EFTA og mikilvægi fríverslunarsamninga milli EFTA annars vegar og þriðju ríkja, ef svo má að orði komast, þ.e. fyrir utan EES-samninginn.

Það sem snýr að viðskiptaþættinum sérstaklega kom enn fremur fram í máli mínu fyrr í dag í umræðunum um utanríkismál, að ég lít svo á að viðskiptasamningar hvers konar séu mikilvæg tæki, ekki bara í sambandi við efnahags- og viðskiptamál heldur líka í utanríkis- og alþjóðamálum og geti átt ríkan þátt í því að efla samstarf milli þjóða og þess vegna að eyða tortryggni og hindrunum af hvers konar tagi, hvort sem þær eru viðskiptalegs eðlis eða pólitískar. Ég tel þess vegna að það sé mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að beita okkur fyrir því, m.a. á vettvangi EFTA, að gerðir séu viðskiptasamningar.

Það er reyndar ástæða til að hnykkja á því sem kom fram í máli mínu í dag, að auðvitað stöndum við frammi fyrir því að það er gríðarlega mikil efnahagsleg gjá á milli einstakra heimshluta í dag og það er mikilvægt að vinna á þeirri gjá, brúa hana, og þess vegna þarf að gæta þess að viðskiptasamningar verði ekki til þess að festa slíka gjá í sessi heldur þvert á móti að brúa hana og að eyða eða draga úr, skulum við segja, þeim efnalega mun sem er á milli ríkra þjóða og fátækra. Ég tel að viðskiptasamningar geti verið leið til þess og þess vegna eru þeir jákvæðir. Um leið bendi ég á hitt að það er mikilvægt að ríkari þjóðir noti ekki viðskipti af þessum toga fyrst og fremst sér til framdráttar.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson lýsti ágætlega starfi þingmannanefndar EFTA. Ég á sjálfur sæti í þeirri þingmannanefnd og hef starfað þar frá því ég tók sæti á Alþingi sl. vor og mér hefur þótt það starf áhugavert og það er fjölmargt sem þar er fjallað um. Það er rétt sem hér hefur komið fram að á þeim vettvangi er ekki bara fjallað um EES-samninginn, þó að vissulega sé hann fyrirferðarmikill eðli málsins samkvæmt og ég mun fara aðeins betur í slík mál síðar í kvöld í umræðum um mál sem lúta að tilskipunum Evrópusambandsins, en þessi þáttur í starfi EFTA er þýðingarmikill og við eigum að sinna honum mjög vel.

Ég get líka tekið undir með hv. þingmanni að heimsókn þingmannanefndarinnar eða hluta hennar til Indlands var mjög áhugaverð og þar eru vissulega mikil tækifæri. Hin stóru hagkerfi Asíu, bæði Indland og Kína, eru auðvitað stórveldi í raun og veru á þessu sviði og hagvöxtur í þeim löndum og víðar í Austur- og Suðaustur-Asíu er gríðarleg mikill og miklu meiri en við þekkjum og viðskipti þeirra hafa verið að aukast, ekki bara við þróuð ríki eins og Bandaríkin og Vestur-Evrópu, heldur hafa viðskipti þeirra við þróunarlönd, t.d. í Afríku, sömuleiðis verið að aukast mjög mikið. Ég tel líka mjög mikilvægt, ekki síst fyrir þróunarríkin í Afríku að geta átt vinsamleg og mikil viðskipti við þessu stóru vaxandi hagkerfi. Þar skapast líka miklir möguleikar.

Það er líka áhugavert í sambandi við Fríverslunarsamtök Evrópu eða EFTA, þó það hafi heldur fækkað í þeim félagsskap á undanförnum árum, að þá eru líka til þeir sem lýsa áhuga á því að taka þátt í starfi EFTA og ég leyfi mér að minna á það að Færeyingar hafa óskað eftir því að komast inn í þau samtök eða a.m.k. fá umræðu um þau mál og við Íslendingar höfum stutt viðleitni þeirra og óskir þeirra í því efni. Það eru að vísu skiptar skoðanir um það á vettvangi EFTA-ríkjanna en mér finnst sjálfsagt að við höldum áfram að leggja þeim lið í þessu og jafnvel fleiri ríkjum sem hugsanlega gætu haft hagsmuni af því að koma til liðs við EFTA og nálgast þannig þennan stóra markað sem Evrópa sannarlega er. Ég veit ekki hvort ég á að leyfa mér að nefna ríki eins og Úkraínu og Georgíu í því sambandi en það er sagt algjörlega án ábyrgðar og í öðru samhengi í framhaldi af umræðunni fyrr í dag.

En ég held að það felist margvíslegir möguleikar í samningum af þessum toga og ég álít að við eigum að beita okkur fyrir því og vil taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Bjarna Benediktssonar um starf þingmannanefndarinnar.