135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

staða samninga um svæði við Svalbarða og Hatton-Rockall.

335. mál
[12:04]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrirspurnin sem barst til mín frá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni var annars vegar um stöðuna í samningnum við Norðmenn og fleiri um svæðið kringum Svalbarða og hins vegar um stöðuna í samningnum um Hatton-Rockall svæðið.

Fyrst varðandi Svalbarða. Eins og kunnugt er hefur verið ágreiningur milli Noregs annars vegar og fjölda annarra aðildarríkja að Svalbarða-samningnum frá 1920 um gildissvið samningsins og réttarstöðu hafsvæðanna umhverfis Svalbarða. Íslensk stjórnvöld líta svo á að eini grundvöllur fullveldisréttinda Noregs á hafsvæðunum kringum Svalbarða, þar með talin efnahagslögsaga og landgrunn, sé umræddur samningur frá 1920 sem veitti Noregi fullveldisréttindi yfir Svalbarða. Fullveldisréttindi Noregs eru háð mikilvægum takmörkunum sem kveðið er á um í samningnum, þar með talin jafnræðisregla hans. Takmarkanir þessar gilda jafnt á Svalbarða sjálfum innan 12 mílna landhelginnar, innan 200 mílna lögsögunnar og á landgrunni Svalbarða. Augljóst er að réttindi Noregs í lögsögunni og landgrunninu umhverfis Svalbarða geta ekki verið meiri en réttindi Noregs á Svalbarða sjálfum sem fyrrnefnd réttindi eru leidd af.

Í kjölfar ítrekaðra brota norskra stjórnvalda gegn ákvæðum Svalbarða-samningsins og réttindum Íslendinga til að veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum innan lögsögu Svalbarða og óbilgirni þeirra í samningaviðræðunum um stjórn síldveiðanna ákvað ríkisstjórnin árið 2004 að hefja undirbúning málssóknar gegn Noregi fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. Íslensk stjórnvöld öfluðu sér ítarlegrar greinargerðar um þetta og héldu ýmsa samráðsfundi með fjölda aðildarríkja að Svalbarða-samningnum.

Samningar náðust hins vegar loks á ný í fyrra milli Noregs, Íslands, Rússlands, Færeyja og ESB um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og samkomulag hefur einnig náðst á svipuðum grundvelli um stjórn veiðanna á þessu ári. Því ber að fagna, enda hafa Íslendingar mikla hagsmuni af því að tryggja að veiðar úr þessum mikilvæga fiskstofni fari fram með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Þetta mál er sem sagt í þessari stöðu núna. Þessir samningar náðust og málið er í ákveðinni biðstöðu.

Varðandi Hatton-Rockall svæðið mætti ég á fund utanríkismálanefndar í morgun ásamt með hafréttarfræðingi ráðuneytisins þar sem ítarleg grein var gerð fyrir stöðu þess máls. Ísland gerir sem kunnugt er tilkall til landgrunns á þremur svæðum utan 200 sjómílna, þ.e. á Reykjaneshrygg og Hatton-Rockall svæðinu í suðri og á suðurhluta Síldarsmugunnar í norðaustri.

Varðandi Hatton-Rockall svæðið hefur ríkt ágreiningur milli Íslands, Bretlands, Írlands og Danmerkur sem fara með málið fyrir hönd Færeyinga um réttarstöðu Hatton-Rockall svæðisins frá því á miðjum 9. áratug síðustu aldar. Afar erfiðlega gekk að koma á viðræðum deiluaðila og það var ekki fyrr en haustið 2001 sem fyrsti fjórhliða fundurinn um Hatton-Rockall málið var haldinn í Reykjavík að frumkvæði íslenskra stjórnvalda. Viðræðurnar voru gagnlegar og hefur þeim síðan verið haldið fram með reglulegum hætti. Aðilar eru sammála um að til þess að lausn náist um afmörkun landgrunns á umdeildum svæðum á borð við Hatton-Rockall svæðið og raunhæft sé að nýta auðlindir þess þurfi tvennt að koma til, annars vegar þurfi hlutaðeigandi ríki að komast að samkomulagi um skiptingu landgrunnsins sín á milli, þ.e. hver skuli vera hlutur hvers, og hins vegar þurfi að nást niðurstöður um afmörkun ytri marka landgrunnsins á grundvelli ákvæðis 76. gr. hafréttarsamningsins og tillagna landgrunnsnefnda Sameinuðu þjóðanna. Íslendingar hafa viljað tengja þetta alveg saman, þ.e. ekki semja um ytri mörkin nema jafnhliða sé samið um skiptingu svæðisins.

Á undanförnum mánuðum hefur verið nokkur framgangur í viðræðunum og aukin áhersla lögð á að fjalla um hugsanlegar leiðir til skiptingar landgrunnsins á Hatton-Rockall svæðinu milli aðilanna fjögurra og hafa nokkrar þreifingar átt sér stað þar að lútandi. Þessi mikilvægi þáttur viðræðnanna hefur kallað á umfangsmikinn undirbúning af Íslands hálfu og hefur m.a. verið aflað ítarlegra upplýsinga um Hatton-Rockall svæðið og lagt mat á hvar séu helst líkur á að kolvetnisauðlindir sé að finna á svæðinu. Síðustu viðræðufundirnir sem haldnir voru í Reykjavík, í Kaupmannahöfn í nóvember og Dyflinni í febrúar gefa ástæðu til að ætla að þreifingar aðila gætu með skömmum fyrirvara þróast í formlegri samningaviðræður um skiptingu svæðisins en síðan verður næsti fundur haldinn í Southampton síðar í þessum mánuði, 22. og 23. apríl. Það var m.a. af þeirri ástæðu sem við komum á fund í utanríkismálanefnd í morgun og gerðum grein fyrir stöðu málsins og fengum viðhorf nefndarinnar til (Forseti hringir.) þess samningsumboðs sem okkar aðilar fara með.