135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

staða samninga um svæði við Svalbarða og Hatton-Rockall.

335. mál
[12:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Grétar Mar Jónsson) (Fl):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka ráðherra fyrir góð svör við þeim spurningum sem ég var með. Þó vil ég spyrja hana og fá betur fram hvort það megi líta svo á að það sem snýr að Svalbarða sé frosið núna og kannski ekki verið að vinna í þeim málum sem skyldi þótt það hafi tekist að semja um síld. Síldveiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum eru með þeim hætti að þjóðirnar sem gerðu þann samning, hvort sem það eru Norðmenn, Færeyingar eða Evrópusambandsþjóðirnar, mega veiða í íslenskri lögsögu líka. Við megum ekki gleyma því að við erum með töluvert af þjóðum sem eiga veiðirétt innan fiskveiðilögsögunnar, Færeyingar og jafnvel Rússar í kolmunna og öðru.

Hetjurnar Eyjólfur Konráð Jónsson, sem barðist mikið fyrir hafréttarmálum á sínum tíma, og Hans G. Andersen eiga heiður skilinn fyrir þá forustu sem þeir veittu í þessum hafréttarmálum. Mér sýnist að ekki veiti af að halda uppi merkjum þeirra. Ég geri töluverðan greinarmun á því sem snýr að Hatton-Rockall svæðinu þar sem mér sýnist vel haldið á málum en síður varðandi Svalbarða. Það er kannski erfiðara líka en ég held að við eigum tvímælalaust að láta reyna á rétt okkar á Svalbarða-svæðinu fyrir hafréttardómstólnum og sýna Norðmönnum í tvo heimana alveg með það. Samkvæmt öllu lítur út sem við eigum rétt við Svalbarða og það skiptir okkur verulegu máli að halda þeim málum gangandi.