135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

fullgilding bókunar við alþjóðasamninga gegn pyndingum.

453. mál
[12:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Í septembermánuði 2003 skrifaði þáverandi utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson undir svonefnda valfrjálsa bókun við alþjóðasamninginn gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Síðan þessi bókun var gerð hafa allmörg ríki fullgilt samninginn af þeim sem undirrituðu hann í byrjun en það gerðu nánast öll Evrópuríki, nokkur Mið-Asíulönd, svo til öll ríki rómönsku Ameríku, Suður-Afríka og fleiri lönd.

Í hópi nágrannaríkja sem þegar hafa fullgilt samninginn eru Svíþjóð, Danmörk, Bretland, Spánn og handan Atlantshafsins Mexíkó, nokkur Mið-Ameríkuríki og svo til öll ríki Suður-Ameríku sem þar með ganga á undan með góðu fordæmi í þessum efnum og undirrita ekki bara samninginn heldur fullgilda hann jafnframt.

Því miður er það svo að áhyggjur manna af pyndingum og ýmiss konar ómannlegri eða vanvirðandi meðferð fólks fara fremur vaxandi en hitt. Maður skyldi ætla að slíkt væri á útleið í heiminum og minni og minni ástæða væri til að hafa áhyggjur af því yfir höfuð en þannig er það því miður alls ekki. Þar kemur ekki síst til hið svonefnda stríð gegn hryðjuverkum og hvernig ríkisstjórnir, m.a. í rótgrónum lýðræðisríkjum sem maður skyldi ætla að hefðu mannréttindi og mannhelgi mjög í hávegum, hafa tekið til við að túlka bæði eigin lög og rétt og alþjóðaréttinn þannig að þau hafa aukið svigrúm jafnvel til pyndinga eða mjög harðneskjulegra yfirheyrsluaðferða á föngum og þar fram eftir götunum.

Því miður er því ærin ástæða til að þoka þessu máli áfram. Það er enginn vafi á því að efni þessarar valfrjálsu bókunar er mjög mikilvægt í þessu efni vegna þess að þar er einmitt kveðið á um tilkomu eftirlitskerfis, að sett verði á fót reglubundið eftirlit og möguleikar á að senda sveitir til eftirlits þar sem menn hafa áhyggjur af því að samningurinn sjálfur sem bannar slíkt athæfi sé brotinn.

Mér finnst mikilvægt að Ísland leggi þessu lið fyrir sitt leyti með því að fullgilda samninginn eða bókunina eins fljótt og mögulegt er og það eru komin allmörg ár síðan hann var undirritaður. Hann var undirritaður af okkar hálfu þannig að spurning mín er í sjálfu sér ósköp einföld til hæstv. utanríkisráðherra og hún er svona: Hvað líður fullgildingu Íslands á valfrjálsri bókun við alþjóðasamning gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu?