135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

fullgilding bókunar við alþjóðasamninga gegn pyndingum.

453. mál
[12:19]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Vegna þessarar fyrirspurnar og umræðu sem var hér í gær um fullgildingu mansalsbókana við Palermó-samninginn, fullgildingu mansalssamnings Evrópuráðsins og síðan aftur varðandi bókun við alþjóðasamninginn gegn pyndingum, þá vil ég segja að utanríkisráðuneytið er kannski eins og verkamaður í víngarði Drottins. Það fer með fullgildinguna en þarf í rauninni atbeina annarra ráðuneyta til þess að hún nái fram að ganga vegna þess að oft kallar þetta á breytingar á ýmsum lögum sem heyra þá undir önnur ráðuneyti. Það á við í þessu tilviki en það heyrir undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Samkvæmt upplýsingum frá því ráðuneyti eru lagabreytingar nauðsynlegar til þess að Ísland geti uppfyllt þær skyldur sem bókunin leggur þeim ríkjum á herðar sem hana fullgilda.

Markmið bókunarinnar er að koma á reglulegu eftirliti með þeim stöðum þar sem frelsissviptir einstaklingar eru vistaðir og fyrirbyggja með þeim hætti að ómannúðleg meðferð eigi sér stað. Bókunin kveður á um að eftirlitið skuli vera með tvennum hætti: Annars vegar með því að heimila reglulegar heimsóknir alþjóðlegra sérfræðinga og hins vegar með því að koma á reglulegu eftirliti af hálfu innlendra aðila. Til að unnt sé að fullgilda bókunina þarf að setja í íslensk lög ákvæði varðandi eftirlitið. Ríki hafa val um hvernig hinu innlenda eftirliti verður hagað en eftirlitsaðilinn skal vera sjálfstæður og hafa jafnframt viðeigandi sérfræðiþekkingu.

Er nú unnið að því í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu að skoða hverjum skuli fela eftirlitið og er gert ráð fyrir að tillögur að nauðsynlegum lagabreytingum verði tilbúnar í haust.