135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

stúdentar frá Menntaskólanum Hraðbraut.

467. mál
[12:53]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin. Það er ljóst að það er velvilji í ráðuneytinu gagnvart þessum skóla sem er eini skólinn sem getur útskrifað nemendur eftir tvö ár. Samkvæmt þeim upplýsingum sem hæstv. ráðherra las virðist skólinn vera að meginhluta eða stórum hluta sóttur af konum, það á líka við um þá nemendur sem eru yngri en 18 ára en þar eru konur í meiri hluta eða 60%. Það sýnir sig að konur virðast meta það meira að komast fyrr út á vinnumarkaðinn, geta hafið starfsævina fyrr og eru að því leyti skynsamar.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra til viðbótar fyrir utan þá velvild sem hún hefur sýnt hraðbraut hvort skólinn fái meira greitt fyrir hvern nemanda vegna þess sparnaðar sem hann skilar ríkinu við að útskrifa nemendur fyrr, hvort skólinn fái meira á ári en aðrir skólar.

Síðan er það spurningin hvort í nýju frumvarpi sé möguleiki á því að framhaldsskóli geti gert samninga við nemendur þegar þeir sækja um, þ.e. að skólinn lofi að veita manninum námsframboð til stúdentsprófs í tvö ár, þrjú ár eða fjögur ár eftir atvikum og nemandinn lofi að nýta námsframboðið þannig að hann geti ekki hoppað út fyrirvaralaust eins og virðist oft vera reyndin vegna þess að nám er fjárfesting og ríkið leggur þarna fram mjög mikla peninga í það að gera þessa fjárfestingu kleifa fyrir nemandann sem er líka gott fyrir ríkið en mér finnst að það vanti alla skuldbindingu af hendi nemandans að nýta og klára þessa fjárfestingu sem hafin er.