135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

tónlistarnám á framhaldsskólastigi.

502. mál
[13:00]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. fyrirspyrjanda, Bjarna Harðarsyni, og undirstrika mikilvægi tónlistarnáms. Eins og fyrirspyrjanda er kunnugt um fer stofnun og rekstur tónlistarskóla eftir gildandi lögum frá 1985 um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Ákvæði þeirra laga gera ráð fyrir því að sveitarfélög eða einkaaðilar er starfa innan eins eða fleiri sveitarfélaga geti starfrækt tónlistarskóla. Tónlistarskólastarfið er ekki á ábyrgð ríkisins. Gert er ráð fyrir því að sveitarfélög sem reka tónlistarskóla greiði launakostnað kennara og skólastjóra. Einkareknir tónlistarskólar, sem hafa þjónustusamning við sveitarstjórn og staðfestingu ráðuneytisins um að kennsla fari fram samkvæmt námskrá, geta enn fremur fengið greiddan launakostnað kennara og skólastjóra úr sveitarsjóði.

Á móti þessum fjárstuðningi sveitarfélaga er tónlistarskólum ætlað að innheimta skólagjöld sem standa undir öðrum rekstrarkostnaði en launum kennara og skólastjóra. Samkvæmt þessu hefur menntamálaráðuneytið það hlutverk að veita tónlistarskólunum sérstakt samþykki og hafa með höndum faglega umsjón og eftirlit með tónlistarkennslu í landinu og ráðuneytið hefur í framangreindu skyni gefið út aðalnámskrá tónlistarskóla árið 2000, bæði almenna hlutann og í einstökum hljóðfæragreinum.

Samkvæmt þessu gera gildandi lög ráð fyrir því að rekstur og fjárhagslegur stuðningur við tónlistarskóla sé viðfangsefni sveitarfélaga. Hér er hins vegar ekki um lögbundið verkefni þeirra að ræða. Þá vil ég enn fremur minna á að það leiðir af ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar, um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga, sem oft er talað um hér, að sveitarfélög ákveða sjálf hvort þau koma að rekstri tónlistarskóla og um greiðslu kennslukostnaðar vegna þeirra nemenda sem stunda tónlistarnám utan lögheimilis sveitarfélags á öllum stigum tónlistarnáms, grunn-, mið- og framhaldsstigi. Ég bendi líka á fordæmi slíks sem felst í samkomulagi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um greiðslur með þeim nemendum sem stunda tónlistarnám utan lögheimilis sveitarfélags. Það er hins vegar alveg ljóst að breytingar á núverandi fyrirkomulagi verða ekki gerðar nema með breytingum á lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður: Hvenær má búast við að aflétt verði átthagafjötrum tónlistarnemenda í landinu? Ég vil ekki taka undir það með svo afdrifaríkum hætti að átthagafjötrar séu á tónlistarnemendum en sannarlega má færa margt til betri vegar í samskiptum milli sveitarfélaga fyrst og fremst varðandi rekstur tónlistarskólanna.

Í mars 2004 tók til starfa nefnd menntamálaráðherra um endurskoðun laga og það er langt síðan, næstum því sex ár, sem að mínu mati er til vansa, og ég kem að því á eftir af hverju það er. Þá tók til starfa nefnd sem átti að endurskoða lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Nefndinni var ætlað að gera tillögur um endurskoðun gildandi laga um tónlistarfræðslu. Um starf nefndarinnar er það að segja að fyrir liggja tillögur að frumvarpi til nýrra heildarlaga um starfsemi tónlistarskóla en ýmis álitamál, sem tengjast efni frumvarpsins, hafa komið upp í samvinnu og samskiptum við Samband íslenskra sveitarfélaga og menntamálaráðuneytið og hefur því ekki komið til framlagningar þess. Ég hef margoft áður sagt það hér að ég tel að meginsjónarmiðið eigi að vera það að við eigum að hafa þá skipan að grunn- og miðstigið eigi að vera á forræði og ábyrgð sveitarfélaga og framhaldsstigið hjá ríkinu. Þetta á að gilda um allt listnám, líka listdansinn, um allt listnám sem í aðalnámskrá er.

En ríkið og sveitarfélögin verða að koma sér saman um kostnaðarskiptinguna og þess vegna hef ég sérstaklega ítrekað það við þá ráðherra sem fara með samningsumboðið við sveitarfélögin og talað um það við forustumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga að þetta mál verði strax leyst. Ekki er hægt að una því að ekki sé hægt að leysa málefni tónlistarfræðslunnar af því að menn nái ekki saman. Ég tel hins vegar að það sé alveg ljóst að hin menntapólitíska stefna liggur fyrir. Hún kostar ríkisvaldið 250 millj. kr. og þar fyrir utan eru sveitarfélögin ekki tilbúin til að fara þessa leið í listdansinum og mér finnst það umhugsunarefni. Þau eru tilbúin til að gera þetta í tónlistarskólanum af því að ríkið á að taka á sig kostnað þar en ekki varðandi listdansinn. Mér finnst það ekki gott þegar menn hugsa ekki heildstætt þegar kemur að mótun stefnu varðandi listnám. Ég held að þetta sé einfalt, þetta er gegnsætt, ekki síst fyrir foreldra og nemendur sem eru í tónlistarskólunum.

Ég hef sem sagt ítrekað það að ég tel að þessi þáttur verði sérstaklega dreginn út úr almennum viðræðum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þessa ósamkomulags milli aðilanna um verkaskiptinguna. Ég hef átt ágæta samvinnu við tónlistarskólana, sem eru á svipuðu máli og ég varðandi stefnuna, og ég vænti þess að það verði þá góð samvinna allra þegar þetta mál kemur inn í þingið þegar þar að kemur. Ég bind vonir við að það verði á haustdögum.

Ég vil hins vegar undirstrika það að þessi tilfærsla er að sjálfsögðu vandasöm enda miklir fjármunir í húfi. Í því sambandi er ekki síst mikilvægt að sveitarfélögin sjálf komist að sameiginlegri niðurstöðu og mun ég koma að því á eftir.