135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:33]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn frá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur og minni á að þessi aðlögun sem við verðum að fara í varðandi matvæli — það var hafinn mikill og góður undirbúningur að því máli hjá fyrrverandi landbúnaðarráðherra, hv. þm. Guðna Ágústssyni. Það hefur lengi legið ljóst fyrir að við hefðum ekki þessa undanþágu lengur. Þess vegna er nauðsynlegt að innleiða matvælalöggjöfina. Hluti af því er að við verðum að hafa óheftan aðgang fyrir sjávarafurðir okkar inn á Evrópumarkað. Til þess að þær verði ekki meðhöndlaðar eins og þriðja ríkis vara þá verðum við að taka yfir matvælalöggjöfina algerlega eins og frumvarp hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir og við höfum fjallað um í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Við hófum einmitt þá vinnu í morgun en ljóst er að hér er um heilmikla breytingu að ræða. En það eru auðvitað mörg atriði sem verður að íhuga sérstaklega og við verðum alltaf að hafa í huga, m.a. að hreinleiki landbúnaðarafurða okkar er meiri en tíðkast annars staðar Evrópu, sérstaklega varðandi kampýlóbakter, salmonellu (Forseti hringir.) og slíka hluti. Þetta eru allt saman atriði sem við verðum að fara yfir af því að við tölum þarna um (Forseti hringir.) hreinleika landbúnaðarafurða og hvernig við eigum að sinna þeim málum hér á landi.