135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:38]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er vissulega undrunarefni að heyra skýringar á þessu frumvarpi hjá formanni þingflokks sjálfstæðismanna og reyndar hæstv. landbúnaðarráðherra líka. Í fyrsta lagi virðist sú meginstoð í málflutningi manna að vernda þurfi búfjárstofna og heilbrigði manna með þeim hætti að banna innflutning á hráu kjöti, ekki lengur vera neitt áhyggjuefni vegna þess að Brussel segir að þetta verði að vera svona. Var þá aldrei nein meining í rökum þessara tveggja hv. þingmanna og e.t.v. fleiri fyrst það er hægt með einu pennastriki að leggja þau til hliðar?

Ég hef árum saman fylgst með umræðunni um landbúnaðarmál (Gripið fram í.) sem einmitt hefur grundvallast á þessu að menn vildu tryggja að hingað bærust ekki sjúkdómar sem mundu verða skaðlegir fyrir þá stofna búfjár sem eru hér á landi eða mundu ógna heilbrigði manna sem vel gæti gerst. Þess vegna hafa verið mjög strangar reglur um innflutning á hráu kjöti til landsins. Ég átta mig ekki á því hvers vegna hægt er að segja að nú sé það allt í lagi að víkja þessum rökum til hliðar vegna hagsmuna á útflutningi á fiski. Voru þá heilbrigðisrökin bara fyrirsláttur, virðulegi forseti, eða hvaða endemis rugl er þetta, liggur við að ég segi, virðulegi forseti? Það sagði ég reyndar, ég verð víst að gangast við því, það er ekki hægt að þræta fyrir það. En mér er eiginlega öllum lokið að hlusta á þennan málflutning af hálfu þingmanna flokks sem segist vera andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu en um leið og Evrópusambandið segir eitthvað þá beygja menn sig bara og taka póstinn eins og ekkert sé.