135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:44]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vildi taka þetta mál upp til að reyna að átta mig betur á því hvað um væri að vera vegna þess að mér fannst ræða hæstv. ráðherra á laugardaginn í Valhöll vera í mjög miklu ósamræmi við ræðu hans síðast þegar hann mælti fyrir þessu máli og gerði í raun lítið úr því. En það er alveg rétt sem kemur fram hjá hv. formanni landbúnaðarnefndar að þetta mál hafi borist landbúnaðarráðuneytinu í tíð fyrri ríkisstjórnar þannig að þetta er bara pósturinn frá Brussel eins og maður segir. Við erum að innleiða þessa löggjöf vegna aðildar okkar að hinu Evrópska efnahagssvæði og það er svo sem ekki nýtt að það sé gert en málið er eins og hv. formaður sagði að við verðum að taka yfir þessa matvælalöggjöf. Það er ástæða þess að við erum að ræða þetta á hv. Alþingi. Það er ástæða þess að hæstv. landbúnaðarráðherra mælir fyrir málinu hér og leggur það fram en ekki sú ástæða að hann sé að gerbreyta landbúnaðarstefnunni með málinu.

Það er eitt sem honum hefur þó tekist fyrir utan það að berja sér á brjóst í Valhöll og segja sem svo: Sáuð þið hvernig ég tók hann. Honum tókst að gleðja Samfylkinguna. Það er náttúrlega rosalega mikilvægt á þessum degi að (Gripið fram í.) honum hefur tekist að gleðja Samfylkinguna. Það veitir ekki af því vegna þess að mér sýnist að það sé svona alla vega samband á milli flokkanna. En nú liggur það fyrir. (Gripið fram í.) Mér finnst að innleiða þurfi þessa löggjöf vegna þess að ég hef setið í ríkisstjórn og þekki það alveg að við getum ekki fengið undanþágu frá því sem okkur sýnist. Við innleiðum þessa löggjöf en hún er ekki sú grundvallarbreyting á landbúnaðarkerfinu og landbúnaðarstefnunni eins og ráðherrann gaf í skyn.