135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

frumvarp um matvæli -- löggæsla á Suðurnesjum -- þjóðlendur.

[13:59]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það ber svo margt á góma hér að það leifir ekki af að maður muni á leiðinni í ræðustólinn hvað maður ætlaði að taka fyrir af því sem hér hefur verið tekið upp. Varðandi þjóðlendukröfurnar get ég ekki annað en tekið undir með hv. málshefjanda, Bjarna Harðarsyni, það kom mér á óvart að þau fyrirheit sem gefin höfðu verið um endurskoðun vinnubragða skyldu ekki leiða til mildari framsetningar á kröfum ríkisins en raun ber vitni.

Ég ætlaði að taka hér upp löggæslumálin á Suðurnesjum. Ég verð að taka undir með þeim sem þannig töluðu að það er ákaflega undarlegt að það sé borið á borð fyrir mann að nú skuli allt í einu boðið upp á að sundra nýtilkomnum kerfisbreytingum þar sem þetta var sameinað og talið hafa gefist vel, vitandi ekki annað en að ánægja ríki með það fyrirkomulag meðal starfsmanna, aftur og nokkurn veginn með sömu rökum og notuð voru til að sameina fyrir fáeinum missirum. Mér finnast stjórnvöld þurfa að skýra svona mál betur og það verður að fá upp á borðið ef eitthvað annað og meira er þarna á bak við og á ferðinni, einhver persónuleg mál eða ágreiningur eða annað í þeim dúr.

Hitt er að mínu mati ekki síður alvarlegt, og það vil ég taka hér upp, að hin almenna löggæsla er að drabbast niður á þessu svæði eins og víðar. Ég var í Grindavík á dögunum og þar er megn óánægja með það að lögreglustöðin þar stendur tóm. Það heyrir til viðburða að lögregla komi til Grindavíkur, (Gripið fram í.) í stærðarkaupstað, vaxandi kaupstað. Þá háttar þannig til að yfirleitt vita allir með góðum fyrirvara að lögreglubíllinn er á leiðinni og það er hægt að senda SMS í gegnum símana til að láta vita af því sem þurfi að fara í skjól rétt á meðan lögreglan er í plássinu. Alltsvo, þetta er ástandið sem boðið er upp á í einum af hinum stóru kaupstöðum landsins. Þetta er algerlega óviðunandi.

Ég veit svo sem ekki hvort þær hræringar að sundra og sameina embætti hafa nokkuð með það að gera að efla þessa starfsemi. Þarna vantar meiri peninga, það verður að leggja fjármuni í grenndargæsluna í landinu sem hefur drabbast niður undanfarin ár og er til háborinnar skammar. Það væri nær (Forseti hringir.) að setja í þetta eitthvað af peningunum sem á að setja í varnarmálaruglið, frú forseti. (Gripið fram í.)