135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

dreifmenntaverkefni í grunnskólum Vestur-Barðastrandarsýslu.

567. mál
[14:11]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Herra forseti. Ég vildi leggja nokkur orð inn í umræðu um það verkefni sem þarna fór af stað. Það var reyndar í minni tíð sem iðnaðarráðherra að farið var sameiginlega í þetta verkefni af hálfu iðnaðarráðuneytis og menntamálaráðuneytis þó að menntamálaráðuneytið legði að sjálfsögðu fram alla fagþekkingu í verkið. Þarna var um ákveðna tilraun að ræða og frumkvöðlastarf vil ég meina sem mér heyrist að hafi tekist vel til og því skiptir mjög miklu máli að það sé þróað áfram. Mér heyrist á hæstv. menntamálaráðherra að hún sé tilbúin til að hugsa þetta verkefni jafnvel líka í sambandi við framhaldsskólanámið. En þar sem byggðin er svo dreifð er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að fara allar hugsanlegar nýstárlegar leiðir til að fólk geti notið menntunar og nú heyrist manni að það styttist í að fjarskiptamálin komist í betra lag (Forseti hringir.) og þá verður þetta allt auðveldara. Ég vildi bara segja að ég tel mjög mikilvægt að þetta mál hafi komið hér til umræðu.