135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

dreifmenntaverkefni í grunnskólum Vestur-Barðastrandarsýslu.

567. mál
[14:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir skýr og greinargóð svör og treysti því að þessu mikilvæga verkefni fyrir skólana í Vesturbyggð og Tálknafirði verði fylgt eftir af fullum krafti. Ég sem hér stend tók þátt í þessu verkefni sjálf og veit hvað það hafði mikla þýðingu fyrir svæðið en eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir kom inn á benda allar niðurstöður til þess að það hafi tekist geysilega vel.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir fámenn sveitarfélög að stuðningur við nám og námsframboð sé gott og að innan skólanna eigi sér stað þróunarvinna sem leiðir til fjölbreyttara námsumhverfis. Skólastarf á hverjum stað fyrir sig hvar sem er á landinu er nefnilega oftar en ekki sá þáttur sem barnafjölskyldur láta vera sinn útgangspunkt þegar búseta er valin og því skiptir þetta verkefni heilmiklu fyrir sunnanverða Vestfirði og reyndar landið allt ef fleiri taka það upp. Ég þakka umræðuna.