135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

Ísafjarðarflugvöllur.

383. mál
[14:17]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra sem varðar Ísafjarðarflugvöll. Spurningin er svona, með leyfi forseta:

„Er eitthvað sem stendur í vegi fyrir því að Ísafjarðarflugvöllur fái stöðu alþjóðaflugvallar?“ [Skvaldur.]

Nú var fyrr á árum millilandaflug frá Ísafirði og þá ekki síst til Grænlands [Skvaldur.] og það er fyrst og fremst það sem liggur að baki þessari fyrirspurn. [Truflun úr hliðarsal.] Það er dálítill hávaði, hæstv. forseti, héðan úr hliðarsal. [Skvaldur.] Væri hægt að gera eitthvað í því?

Það er fyrst og fremst flugið [Skvaldur.] til Grænlands sem hér um ræðir. Ég er ekki að velta því fyrir mér hvort stórar farþegaþotur komi til með að lenda á Ísafjarðarflugvelli. Ég þekki ýmsa annmarka sem völlurinn hefur. Hins vegar er þetta mál sem mundi skipta miklu máli vegna þeirrar þjónustu sem Íslendingar og Vestfirðingar gætu veitt Grænlendingum. [Skvaldur.] En þetta er það sem hamlar. Ég geri mér líka grein fyrir því að um beinan útflutning gæti verið að ræða frá Vestfjörðum ef þetta næðist fram sem mundi skipta máli líka.

Eins og allir þekkja hefur starfsemi í kringum sjóstangaveiði fyrir vestan verið að eflast á síðustu árum. Ég hef kynnt mér það að þeir sem standa fyrir þeirri starfsemi hugsa sér þetta kannski ekki endilega sem möguleika eða sem mikilvægan þátt í starfseminni vegna þess að þeirra gestir koma frá mörgum Evrópulöndum. Annað mundi þó skipta þar máli sem ég veit að hæstv. samgönguráðherra er ekki kannski sá rétti til að svara. Það varðar tollskoðun sem væri mikilvægt að gæti farið fram fyrir vestan hjá þeim farþegum sem eru að fara úr landi. En það er mál sem varðar annan ráðherra. Ég ætlast því ekki til að hæstv. samgönguráðherra svari þessu. Ég held að það væri mjög áhugavert að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur um þetta mál að segja og hvort hann sjái nokkra möguleika sem gætu gert Vestfirðingum auðveldara að nýta flugvöllinn.