135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

margfeldisáhrif sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum.

505. mál
[14:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég hef beint fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem er svohljóðandi:

„Hefur farið fram athugun á því hver séu margfeldisáhrif sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum?“

Ekki þarf að hafa mörg orð um það að sjávarútvegur skipar mjög veglegan sess í þjóðarbúskap okkar Íslendinga. Hagtölur sýna að aðrar greinar hafa reyndar verið að koma mjög sterkt inn á undanförnum árum en það breytir því ekki að sjávarútvegur er geysilega mikilvægur og leitun að þjóðfélagi sem byggir í eins miklum mæli á sjávarútvegi og tengdum greinum. Ekki nóg með það. Við erum mjög auðugt og þróað þjóðfélag sem byggjum í miklum mæli á sjávarútvegi.

Þjóðhagsreikningar gefa að mínu mati ekki nægilega skýra mynd af mikilvægi atvinnugreinarinnar og tengdra greina af því að eingöngu er þar horft á bein framlög atvinnugreinanna til landsframleiðslunnar. Það er mikilvægt að horfa á hlutina í víðara samhengi. Við gætum t.d. nefnt fyrirtæki sem þjóna íslenskum útgerðum og fiskvinnslufyrirtækjum eða fyrirtækjum sem vinna úr hráefnum tengdum sjávarútvegi. Við gætum líka nefnt fyrirtæki sem eiga mikið undir viðskiptum við sjávarútvegsfyrirtækin og getum þá m.a. horft til fjármálafyrirtækja. Það má líka nefna opinberu fyrirtækin, sem sinna mörg sjávarútveginum, upplýsingafyrirtæki og önnur einkarekin fyrirtæki sem koma að því með einum eða öðrum hætti að þjóna sjávarútveginum.

Það hefur verið nefnt að þessi áhrif gætu verið þegar við horfum á heildina — maður hefur heyrt tölur allt frá 25% og upp í 30%. Einnig er áhugavert að skoða hvaða áhrif þetta hefur á landsframleiðsluna en ekki síður ársverkin, hvernig þau atriði sem ég hef nefnt koma í heildina inn í fjölda ársverka, og síðast vildi ég nefna landfræðilegt mikilvægi þessarar atvinnugreinar. Við þekkjum það að sjávarútvegur er að stærstum hluta atvinnugrein landsbyggðarinnar og því er áhugavert að vita um áhrifin á einstökum landsvæðum og því beini ég fyrirspurninni til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.