135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

margfeldisáhrif sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum.

505. mál
[14:38]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa mikilli ánægju með að hæstv. ráðherra skuli hafa sett þessa vinnu af stað. Ég held að þetta séu mjög mikilvægar upplýsingar fyrir okkur og verður gaman að sjá niðurstöðurnar þegar þær verða komnar.

Þessi grundvallaratvinnugrein okkar hefur líka orðið grundvöllur að útrásinni miklu og sérstaklega hjá þeim fyrirtækjum sem hafa verið að byggja sig upp sem þjónustuaðilar við sjávarútveginn. Hæstv. ráðherra nefndi tæknivæðinguna og hversu miklu hún hefur breytt. Hún hefur orðið til að fækka störfum í sjávarútvegi, en hún hefur aftur á móti fjölgað störfum í öðrum greinum sem hafa þjónað sjávarútveginum og íslensk fyrirtæki hafa verið að sækja á erlenda markaði með tæknivörur sínar sem eiga grundvöll í sjávarútveginum. Við getum nefnt Marel og önnur slík fyrirtæki sem eru í mikilli útrás og skipta mjög miklu máli fyrir þjóðarbúskapinn. Þetta skiptir allt saman máli og verður mjög áhugavert að sjá skýrslu Hagfræðistofnunar þegar hún birtist vonandi fyrir þinglok eins og hæstv. ráðherra nefndi.