135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

nýr Suðurlandsvegur milli Reykjavíkur og Selfoss.

437. mál
[14:45]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað dálítið sérstakt að hv. þingmaður kemur hér og bæði spyr og svarar í raun og veru. Það er ánægjulegt að geta gert þetta svona.

En hv. þingmaður þakkar fyrir og hrósar ríkisstjórninni fyrir þá ákvörðun sem tekin var og tilkynnt var fyrir hálfum mánuði eða þremur vikum um að framkvæmdir skuli hefjast við tvöföldun Suðurlandsvegar og fyrsti kaflinn sem tekinn verður er vegur frá Hveragerði að sýslumörkum Gullbringusýslu sem er rétt neðan við Litlu kaffistofuna.

Það hefur áður komið fram, virðulegi forseti, að þetta er sá kafli sem ákveðið var að taka vegna þess að við erum viss um að umhverfismat og annað þarna tekur stuttan tíma. Það verða ekki deilur um það og þetta þarf að komast sem fyrst í skipulagshönnun, útboð og framkvæmdir að hefjast eins og hv. þingmaður talaði um.

Vonandi er þetta sá ferill sem við náum og vonandi verða ekki deilur um þetta þannig að þetta gangi þá eftir. Hugsanlega gætu framkvæmdir hafist um þetta leyti á næsta ári, plús mínus tveir mánuðir eða eitthvað svoleiðis sem fer eftir aðstæðum og ýmsu öðru.

Ég fagna því að hv. þingmaður er sammála þessari ákvörðun og ánægður með hana vegna þess að þetta var auðvitað ákvörðun sem var búið að vinna dálítið lengi með og við fundum að það var samhljómur um þetta og það voru margir sammála okkur um það að þetta væri sá fyrsti kafli sem við gætum sett í gang.

Hv. þingmaður spyr svo um kaflann frá Hveragerði til Selfoss. Því er til að svara að auðvitað hafa bæði ég aðrir heyrt að sveitarfélagið Ölfus hefur nýlega staðfest legu vegarins eftir tillögur sem vinnuhópar sveitarfélaga og Vegagerðarinnar unnu. Eftir því sem ég best veit þá er komin niðurstaða í það og því er mér bæði ljúft og skylt að segja frá því að jafnframt framkvæmdum á kaflanum frá Hveragerði að Litlu kaffistofunni mun Vegagerðin þar næst vinna í þessum kafla við að undirbúa þá vinnu. En þar geta umhverfismat og skipulagsmál og annað verið svolítið flóknara, en menn hafa hingað til talað um það sem næsta kafla.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson, samflokksmaður hv. þingmanns, kom hér og spurði um Akureyrarflugvöll en dró þá fyrirspurn til baka vegna þess að ríkisstjórnin var búin að setja það verk af stað. Hann spurði svo um Vaðlaheiðargöng en dró það nú ekki til baka en kom og sagði að það væri líka búið að ákveða þau. Síðan kemur hv. þm. Bjarni Harðarson og fagnar því að Suðurlandsvegur og sú framkvæmd skuli vera komin í gang og ég get því ekki sagt annað, virðulegi forseti, en að ég er auðvitað ákaflega stoltur af þessu og segi að þetta er eins og með önnur góð verk sem ríkisstjórnin er að vinna, á fullu með öll verk.

Af því að hv. þingmaður á eftir að koma hér aftur þá má ég til með að spyrja hvort hann sé ekki sáttur við þessar miklu framkvæmdir og sammála þeim vegna þess að hann sem talsmaður Framsóknarflokksins í ríkisfjármálum sagði í desember við afgreiðslu fjárlaga að hann væri frekar á móti því að auka við framkvæmdir í samgöngumálum.

Nú spyr ég hv. þingmann hvort hann sé ekki orðinn sammála okkur og hafi skipt um skoðun um að það beri að gefa í í samgöngumálum og hvort hann vilji ekki koma og draga fyrri yfirlýsingu sína til baka og fagna enn og aftur öllum þeim góðu verkum sem hæstv. ríkisstjórn er að vinna að í samgöngumálum eins og reyndar í öllum öðrum málum.