135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

nýr Suðurlandsvegur milli Reykjavíkur og Selfoss.

437. mál
[14:49]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það er auðvitað býsna freistandi að koma hér og taka þátt í þessum fagnaðarlátum á milli hæstv. samgönguráðherra og þingmanns Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi og í sjálfu sér ekki hægt annað en að fagna því að það séu settir fjármunir í vegabætur og umferðaröryggismál eins og endurbæturnar á Suðurlandsvegi sannarlega eru.

En ég vil samt sem áður koma hér og velta því upp í þessu samhengi hvort ráðherrann sé áreiðanlega sannfærður um það innst inni að 2+2 framkvæmd á Suðurlandsvegi núna sé rétt forgangsröðun. Þá er ég fyrst og fremst að horfa til þess að fyrir nokkrum vikum gafst mér ásamt mörgum öðrum tækifæri til að vera á fundi þar sem verið var að ræða um kosti 2+1 vegar og 2+2 vegar og þar sem talið er að 2+1 vegur sé öryggislega ekki síðri lausn. Á meðan þessu fer fram þá situr leiðin hér norður og vestur á land út úr höfuðborginni í raun og veru (Forseti hringir.) algerlega eftir og ég kalla eftir því hvað er að gerast þar. Ætlar ráðherrann ekkert að beita sér í þeim mikilvægu framkvæmdum?