135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

nýr Suðurlandsvegur milli Reykjavíkur og Selfoss.

437. mál
[14:50]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það kemur fram í svörum hæstv. ráðherra að verkhraðinn ræðst af því að það takist að ljúka umhverfismati mjög fljótt og vel og að ekki verði nýttir allir möguleikar til þess að kæra það og seinka endanlegri niðurstöðu þess. Það er út af fyrir sig áhyggjuefni að stjórnvöld skuli ekki hafa markað stefnu í samgöngumálum til lengri tíma í senn en svo að menn eru í kapphlaupi við umhverfissjónarmiðin og eru í raun og veru að leitast við að ganga á þann tíma sem þeim er ætlaður í þessu efni.

En ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að það er ekki nóg að leggja veg, það þarf líka að borga hann. Og ég spyr: Hver ætlar að borga alla þessa framkvæmd? Verður þessi vegur allur greiddur úr ríkissjóði? Gildandi vegáætlun gerir ekki ráð fyrir því, það var gat í henni (Forseti hringir.) og gert ráð fyrir ótilgreindri fjármögnun og ég spyr: Verður veggjald tekið upp á þessum vegi?