135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

nýr Suðurlandsvegur milli Reykjavíkur og Selfoss.

437. mál
[14:54]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég þakka þingmönnum fyrir þessa fyrirspurn og umræður. En aðeins til að útskýra það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson talaði um, að það hafi ekki allir frestir verið nýttir vegna umhverfismats. Jú, auðvitað er það svoleiðis en það er hins vegar mat staðkunnugra að umrætt vegarstæði sé ekki deilumál og fari því ekki í kæruferli líkt og við þekkjum og kannski þingmenn Norðvesturkjördæmis þekkja einna best þar sem mál tefjast hvað það varðar.

Það var ekki um neinn ofmetnað að ræða. Þetta er bara verk sem er verið að vinna og setja í gang. En hv. þm. Bjarni Harðarson kallar hér eftir framkvæmdum Hveragerði/Selfoss og ég tel mig hafa svarað því að það verk er hafið hvað varðar skipulagsvinnuna og umhverfismatið og það er verið að vinna úr því öllu. Vonandi gengur það allt saman vel fram. Ég veit ekki hvort við náum að bjóða út á þessu ári eða hvorum megin áramótanna útboðið á kaflanum frá Hveragerði að sýslumörkunum verður.

En hv. þingmaður talaði líka um það, virðulegi forseti, að það sé krafa þeirra Sunnlendinga að það verði strax farið í Hveragerði/Selfoss. Ég hlýt að fagna því, virðulegi forseti, vegna þess að þá hlýtur það sem hv. þingmaður sagði, talsmaður Framsóknarflokksins í fjárlagaumræðunni, að vera fallið úr gildi en í kosningabaráttunni segist hann sí og æ hafa verið spurður að því hvort það ætti ekki að ráðast í stórfelldar vegaframkvæmdir. Á ekki að gera þetta allt á næstu árum? Svar hv. þingmanns var orðrétt svona, með leyfi forseta:

„Svar mitt var alltaf það sama, að það ætti ekki að ráðast í stórfelldar vegaframkvæmdir við núverandi aðstæður í efnahagslífi.“

Þá fagna ég því auðvitað nema að hv. þingmaður — (BjH: Þar með er ekki sagt að ekki eigi að gera neitt.) Nei, en hingað til hef ég skilið þetta þannig, virðulegi forseti, að talsmaður Framsóknarflokksins í ríkisfjármálum hafi lagst gegn flýtiframkvæmdum og stórframkvæmdum í samgöngumálum eins og ég nefndi áðan og (Gripið fram í.) eins og kom fram (Forseti hringir.) í fjárlagaumræðunni, virðulegi forseti.