135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

vistakstur.

480. mál
[14:59]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Sem svar við fyrirspurn hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um vistakstur er þetta að segja: Kynning og útbreiðsla vistaksturs fellur vel að stefnu langtímasamgönguáætlunar sem og að stefnu ríkisstjórnarinnar sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á öllum sviðum þjóðlífsins. Þá eru markmið verkefnisins um vistakstur í samræmi við markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við alþjóðlega stefnumörkun sem tekur til þess að umhverfisáhrifum hnattrænna, svæðisbundinna og staðbundinna samgangna sé haldið innan viðunandi marka.

Ákveðið hefur verið að hrinda af stað átaki um útbreiðslu vistaksturs sem vinna þarf í nokkrum áföngum. En áfangarnir eru þessir: Að halda almenna kynningu og fræðslu um hugmyndafræði vistaksturs og ávinninginn sem hafa má af honum. Að halda námskeið fyrir atvinnubílstjóra og almenning. Að gera breytingar á lögum og reglugerðum eftir því sem þörf er á til að koma vistakstri formlega inn í ökunám.

Til að efla vistakstur hér á landi hefur verið stofnaður starfshópur undir forustu samgönguráðuneytisins. Aðrir sem hlut eiga í hópnum eru Vegagerðin, Umferðarstofa, Félag íslenskra bifreiðaeigenda, Ökukennarafélag Íslands og Orkusetur á Akureyri

Helstu verkefni hópsins eru skilgreind með eftirfarandi hætti: Að safna upplýsingum um útblástur frá umferðinni. Að setja fram raunhæfar leiðir um að draga úr útblæstri með vistakstri. Að setja fram tillögur um hvernig gera eigi vistakstur almennan meðal íslenskra bílstjóra svo sem með upplýsingaherferð, námskeiðum og fleiri atriðum.

Að áætla kostnað við verkefnið, og að skilgreina aðferðafræði verkefnisins og setja upp tímaáætlun við upphaf þess. Gert er ráð fyrir að tillögum verði skilað til samgönguráðherra bráðlega og hægt verði að ýta verkefninu úr vör fljótlega eftir að tillögur hópsins hafa verið samþykktar.