135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

vistakstur.

480. mál
[15:03]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp og ræða það hér. Ég get reyndar bætt aðeins við það svar sem ég gaf áðan að ekki alls fyrir löngu gengu fulltrúar Landverndar á minn fund þar sem þeir kynntu mér þau áform sem þeir eru með uppi um þetta, þ.e. að flytja hingað til lands svokallaðan aksturshermi fyrir vistakstur. Þeir leituðu eftir stuðningi ráðuneytisins við það verkefni og mér er ljúft og skylt að segja frá því að ég hef tekið ákvörðun um að styrkja það. Ef ég man rétt átti þetta að gerast í vor en ég er ekki frá því, virðulegi forseti, að eitthvað hafi komið upp á og tækið sé ekki tilbúið og komi því ekki fyrr en í haust. En ég tek undir það sem hv. þingmaður talaði um og kom fram í svari mínu að auðvitað er mikilvægast að taka vistakstur upp í ökunámið og kenna ungum ökumönnum þetta strax.

Loks get ég náttúrlega ekki látið hjá líða að hvetja ökumenn almennt til að byrja að þróa sig í vistakstri vegna þess að það er tiltölulega auðvelt, ég tala nú ekki um hjá þeim sem eru með aksturstölvur í bílunum. Slíkar tölvur eru komnar í fjölmarga nýrri bíla þar sem menn geta auðveldlega fylgst með eldsneytiseyðslu eftir því hvernig keyrt er. Það munar t.d. mjög miklu hvort menn keyra á 90 kílómetra hraða eða teygja sig í ólöglegan hraða, 110, 120. Það munar heldur betur miklu og í þeirri orkukreppu sem gengur yfir þjóðina og heiminn þá held ég að mikilvægt sé að allir tileinki sér slíkan akstur og ég nota hér tækifærið og hvet alla til þess.