135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

Patreksfjarðarflugvöllur.

565. mál
[15:08]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir hefur beint til mín tveimur spurningum um Patreksfjarðarflugvöll.

Í fyrsta lagi er spurt: „Hver er þjónustugeta Patreksfjarðarflugvallar og hvernig er viðhaldi og rekstri vallarins háttað?“

Því er til að svara að á Patrekfjarðarflugvelli er 799 metra löng flugbraut með klæddu slitlagi. Völlurinn getur þjónað þeim vélum sem notaðar eru til sjúkraflugs hér á landi auk þess, svo dæmi sé tekið, að geta tekið við minni vélum Ernis, þ.e. Cessna 406 og 441. Flughreyfingar á flugvellinum eru fátíðar en flugbrautin er einkum notuð af einkaflugmönnum og tilfallandi leiguflugi vegna ferðaþjónustu auk sjúkraflugs. Þjónusta á vellinum er engin nema óskað sé eftir henni fyrir fram og þá er það flugvallarvörður á Bíldudalsflugvelli sem sér um að veita þjónustuna en hann sinnir jafnframt eftirliti og viðhaldi Patreksfjarðarflugvallar.

Í öðru lagi er spurt: „Hvert er mat ráðherra á gildi og vægi Patreksfjarðarflugvallar fyrir svæðið allt og hver eru framtíðaráform stjórnvalda hvað völlinn varðar?“

Ekki hefur verið lögð áhersla undanfarin ár á uppbyggingu á og í kringum Patreksfjarðarflugvöll. Fyrir nokkrum árum er valið stóð á milli uppbyggingar á Patreksfjarðarflugvelli og Bíldudalsflugvelli varð niðurstaðan sú að miða við Bíldudalsflugvöll. Ástæður voru fyrst og fremst tvær: Ríkjandi vindáttir á svæðinu eru að mestu leyti norðaustlægar og austlægar. Þær vindáttir henta mjög vel fyrir Bíldudalsflugvöll en eru óhagstæðar fyrir Patreksfjarðarflugvöll. Þá hafa verið vandkvæði vegna mikils sandburðar á og við Patreksfjarðarflugvöll. Því hefur verið lögð áhersla á Bíldudalsflugvöll og áætlunarflug stundað þangað en boðið upp á rútuferðir til Patreksfjarðar í tengslum við flug. Ekki hafa farið fram sérstakar kannanir á vægi vallarins fyrir svæðið eða hvaða vægi hann gæti haft við breyttar aðstæður svo sem nýbreytni í atvinnu, t.d. ferðaþjónustu. Fram hefur komið áhugi ferðaþjónustuaðila á lengingu flugbrautarinnar. Til greina kemur að athugun fari fram á framtíðargildi flugvallarins fyrir vaxandi ferðaþjónustu. Ljóst er þó að það mun kosta nokkra fjármuni.

Ég vil svo bæta við, virðulegi forseti, að ferðaþjónustuaðilar, eins og t.d. þeir sem eru með sjóstangaveiðina, hafa komið til mín og rætt við mig um þessi mál. Þeir hafa verið með stórar og miklar hugmyndir um flug, þar á meðal á Fokker og öðrum slíkum vélum. Ég minni líka á það sem gert var við Patreksfjarðarflugvöll, eins og við hv. þingmaður höfum rætt hér áður, þar sem hann var tekinn úr viðkomandi flokki eða færður til og Bíldudalsflugvöllur tekinn upp í staðinn. Þetta var framkvæmt áður en ég kom í samgönguráðuneytið en ég hef heyrt þetta, bæði á fundum á Patreksfirði og annars staðar og frá áhugasömum aðilum um málið sem oft hafa rætt þetta. En þetta er staða málsins eins og ég hef reynt að svara hv. þingmanni eftir bestu samvisku.