135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

[15:31]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Í lok næsta árs verður haldin í Kaupmannahöfn ráðstefna um næsta skuldbindingartímabil Kyoto-bókunarinnar. Ráðstefnan skiptir okkur Íslendinga miklu því að þar mun koma fram hvort Ísland fái enn notið þeirrar sérstöðu sinnar að iðnaður landsins sé að stærstum hluta knúinn með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Á fyrstu dögum ríkisstjórnarinnar kom í ljós að ríkisstjórnin var klofin í þessum málaflokki. Hæstv. umhverfisráðherra fullyrti að ekki yrði aftur sótt um undanþáguna á meðan hæstv. forsætisráðherra fullyrti á Norðurlandaráðsþinginu í lok síðasta árs að Ísland mundi beita sér fyrir því að íslenska ákvæðinu yrði framhaldið.

Ný ríkisstjórn lagði nýlega fram sjónarmið sín um hvað Ísland mundi leggja áherslu á í samningalotunni sem hefst nú í apríl og lýkur með samningi á næsta ári í Kaupmannahöfn. Ástæðan fyrir því að við framsóknarmenn báðum um þessa utandagskrárumræðu er sú að þrátt fyrir framlagningu skjalsins leikur enn verulegur vafi á því hver raunveruleg samningsmarkmið Íslendinga í samningaferlinu eru. Í plagginu kemur hvergi fram hvort ríkisstjórnin hyggst aftur sækja um undanþágur frá losunarákvæðum eins og í Kyoto-bókuninni. Þá hefur hæstv. umhverfisráðherra fullyrt að undanþágur og sérákvæði komi ekki til tals fyrr en í lok næsta árs eða þegar samningurinn á að vera í höfn samkvæmt áætlun. Miðað við þau orð er ljóst að ríkisstjórnin er alls kostar ófær um að ná fram sameiginlegri stefnu hvað uppbyggingu stóriðnaðar varðar og ætlar að láta reka á reiðanum í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar.

Árið 2001 náðu Íslendingar fram hinu svokallaða íslenska ákvæði með einbeittri framgöngu ráðherra okkar, aðallega umhverfis-, iðnaðar- og utanríkisráðherra ásamt dyggri aðstoð embættismanna í samningaferlinu. Hið íslenska undanþáguákvæði er í mínum huga afar mikilvægt eins og hefur margsinnis sannað sig. Íslendingar hafa takmarkaðri úrræði en flest önnur iðnríki til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þar sem fallvötn og jarðhiti sjá þjóðinni fyrir nær allri orku sem hún þarf. Rökin fyrir undanþáguákvæðinu eru því augljós því að það er átta sinnum umhverfisvænna fyrir lofthjúpinn að við Íslendingar nýtum endurnýjanlega orku í iðnaði en að nota kol eða olíu við framleiðsluna eins og tíðkast sums staðar.

Þá er einnig vert að minnast á hina miklu fjárhagslegu hagsmuni sem eru í húfi fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu. Losunarheimildir munu verða gríðarlega verðmætar þegar fram í sækir. Við Íslendingar stöndum frammi fyrir stóru vandamáli. Hæstv. umhverfisráðherra sem margoft hefur lýst því yfir að hún sé andvíg íslenska ákvæðinu mun leiða samningaviðræðurnar fyrir okkur Íslendinga. Og hvaða vopn fer hún með í farteskinu?

Nú á ekki lengur að benda á sérstöðu Íslands og umhverfisvæna orkugjafa hvað iðnaðaruppbyggingu varðar heldur á að benda á legu landsins og flugsamgöngur. Í mínum huga er það kaldhæðni að hæstv. ráðherra sem nú ætlar að berjast fyrir undanþágunni af þeim ástæðum. Orkugjafar flugvéla okkar Íslendinga eru ekki á nokkurn hátt umhverfisvænni en orkugjafar flugvéla annarra þjóða og losa jafnmikið af gróðurhúsalofttegundum í því tilliti. Miðað við þessar yfirlýsingar er ljóst að hún mun ekki setja kraft í að sannfæra umhverfisráðherra annarra ríkja um gildi íslenska ákvæðisins.

Ef við gefum okkur að stefna hæstv. umhverfisráðherra verði ofan á og ekki verði sótt um hið íslenska ákvæði þá er í mínum huga vikið frá þeirri stefnu að byggja upp iðnað hér á landi sem knúinn væri með umhverfisvænum orkugjöfum. Í mínum huga er afar mikilvægt að ríkisstjórn Íslands gefi skýrar yfirlýsingar um það hver samningsmarkmið hennar eru í samningaferlinu.

Í mínum huga er það einnig ljóst að það er nauðsynlegt fyrir sjálfstæði þjóðarinnar að tryggt verði enn að við Íslendingar getum áfram byggt upp iðnað okkar með umhverfisvænum orkugjöfum og þannig lagt okkar að mörkum til umhverfismála á heimsvísu.

Ráðstefnan í Kaupmannahöfn í lok næsta árs er gríðarlega mikilvæg í þessu tilliti og vonandi mun ný ríkisstjórn koma fram með skýr markmið um hvað hún ætlar að gera í samningaferlinu.