135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

[15:36]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að fá enn eitt tækifærið til að ræða loftslagsmál hér á hinu háa Alþingi. Þau varða framtíð mannkyns og lífs á jörðinni eins og okkar góði gestur og handhafi friðarverðlauna Nóbels, Al Gore, sagði okkur í gær í ógleymanlegum fyrirlestri sínum í Háskólabíói. Hann minnti okkur líka á að við Íslendingar getum lagt okkar lóð á vogarskálar og verið fyrirmynd á mörgum sviðum ef við viljum. Ég vil nota tækifærið hér og greina frá stöðu alþjóðlegra samningaviðræðna í loftslagsmálum og innleggi Íslands í þær viðræður.

Eins og hv. þingmenn muna var samþykkt á Balí í lok síðasta árs að hefja nýjar samningaviðræður þjóða heims um efldar aðgerðir gegn loftslagsvánni í ljósi aukinnar, vísindalegrar staðfestu um að loftslagsbreytingar af mannavöldum eigi sér stað, að afleiðingar þeirra verði geigvænlegar ef ekkert er að gert.

Stefnt er að samþykkt framtíðarsamkomulags í Kaupmannahöfn í lok árs 2009 eins og málshefjandi benti á og var fyrsti samningafundurinn á Balí-ferlinu haldinn nú um síðustu mánaðamót í Bangkok í Taílandi. Þar var gengið frá dagskrá samningafunda á þessu ári. Þeir verða fjórir talsins, sá síðasti í Posnan í Póllandi í byrjun desember og efnt verður til fyrstu umræðu um fimm áhersluatriði Balí-umboðsins sem sumir kalla vegvísi.

Þessar samningaviðræður verða einhverjar þær umfangsmestu í sögunni, ekki bara á sviði umhverfismála heldur almennt. Þarna eru gífurlega miklir hagsmunir í húfi, efnahagslegir og pólitískir og mest af öllu þeir sem varða lífsskilyrði núverandi og komandi kynslóða á jörðinni. Ísland leggur áherslu á að öll ríki séu hluti af lausninni á loftslagsvandanum sem leggi til hans, einnig þróunarríki þar sem efnahagur og losun gróðurhúsalofttegunda vex ört. Að sjálfsögðu er einnig viðurkennt að eyríkin eigi að vera í fararbroddi í minnkun losunar og lönd á borð við Kína og Indland geti ekki tekið á sig sams konar skuldbindingar strax.

Ísland telur einnig að framtíðarkerfið sem byggi á tölulegum skuldbindingum og efnahagslegum hvötum eigi að ná til sem flestra uppsprettna og viðtaka svo lengi sem traustur vísindalegur grunnur sé fyrir hendi til að meta árangur. Þannig viljum við m.a. skoða endurheimt votlendis sem viðurkennda bindingarleið í viðbót við endurheimt skóga, landgræðslu og verndun regnskóga og skoða einnig niðurdælingu á koltvísýringi að því gefnu að tryggt sé að gasið geymist til frambúðar neðan jarðar. Áhugaverð tilraun er í gangi í þeim efnum á Hellisheiðinni.

Ísland vill skoða sértækar aðgerðir til að minnka losun í ákveðnum greinum t.d. frá flugi og siglingum þótt óljóst sé á þessari stundu hvernig slíkar aðgerðir verði útfærðar. Virkur alþjóðlegur markaður með losunarheimildir er sérstaklega mikilvægur, ekki síst fyrir lítil lönd eins og Ísland svo hægt sé að virkja sveigjanleikaákvæði loftslagssamningsins.

Það er rétt að ítreka að hinar nýju samningaviðræður eru rétt að hefjast og í Bangkok var fyrst og fremst verið að ræða um grundvallarforsendur í nýju samkomulagi. Engin ríki hafa formlega lagt fram tillögur með tölulegum skuldbindingum, þ.e. formlega við samningaborðið. Evrópusambandið hefur raunar nefnt töluleg markmið eins og við höfum gert sem stefna beri að en Evrópusambandið er ekki tilbúið til að taka á sig alþjóðlega bindandi skuldbindingar nema aðrir komi með og það gildir í raun um alla.

Fyrir Balí-fundinn í desember samþykkti ríkisstjórn Íslands að við skyldum skipa okkur í lið með þeim ríkjum sem vilja halda hlýnun innan við tvær gráður á Celsíus á þessari öld og leggja áherslu á að iðnríkin fari fram með góðu fordæmi á næsta skuldbindingartímabili, þ.e. til 2020, þannig að mikill samdráttur í losun náist á næstu 10–15 árum á heimsvísu. Aðeins þannig mun okkur takast að stöðva hlýnunina og snúa henni síðan við.

Stefnumótun í samningaviðræðunum er í verkahring hóps fjögurra ráðherra eins og þingmenn vita og við förum yfir stöðu mála hverju sinni. Það verða þrír samningafundir í viðbót á þessu ári og að minnsta kosti fjórir á því næsta áður en gengið verður frá grunni samkomulags. Það getur síðan tekið einhvern tíma að útfæra tæknileg atriði eins og gerðist í kjölfar Kyoto-bókunarinnar. Ég er að sjálfsögðu tilbúin til þess að fara nánar yfir stöðu mála hér á hinu háa Alþingi og með hv. umhverfisnefnd ef og þegar þingmenn vilja ræða um loftslagssamningana.