135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

[15:46]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum áratugum var efst á baugi það vandamál sem menn höfðu komið auga á að væri fyrir hendi sem var að ósoneyðandi efni, sem menn höfðu notað í miklum mæli, voru að gera gat á lofthjúpinn. Þá var gripið til aðgerða, og um það varð samstaða meðal þjóða heimsins á ráðstefnu í Montreal fyrir 20 árum, til þess að draga úr notkun þess efnis. Á þeim tveimur áratugum sem liðnir eru frá því að það samkomulag var gert hefur náðst mjög góður árangur, miklu betri en menn gerðu ráð fyrir þá, og málið horfir allt öðruvísi við í dag en áður var og til miklu betri vegar. Þetta sýnir okkur að menn geta náð góðum árangri með skynsamlegum aðgerðum til lausnar á vanda sem uppi er.

Hlýnun jarðar er vandi, ekki er hægt að bera á móti því. Þó að umdeilt sé hvort sá vandi er af manna völdum eða ekki eru yfirgnæfandi líkur á því að mannkynið sé að verulegu leyti ástæðan. Með sama hætti og menn gripu til aðgerða fyrir 20 árum gegn ósoneyðandi efnum eiga þjóðir heims að vinna gegn hlýnun jarðar þannig að ekki stefni í óefni. Íslendingar eiga að leggja sitt af mörkum í því eins og aðrir. Íslenska ákvæðið, sem hér hefur verið nefnt, er hluti af því. Ég er eindregið á þeirri skoðun að þegar á heildina er litið hafi það ákvæði verið til gagns fyrir heiminn allan og það sé ekki byggt á séríslenskum hagsmunum einum og gegn hagsmunum annarra, þvert á móti, enda væri það ekki til staðar í samningnum og hefði ekki verið samþykkt af öðrum þjóðum nema vegna þess að málið var allt til bóta fyrir heildina.