135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

[15:52]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér finnst dapurlegt að málshefjandi haldi hér enn lifandi ruglinu um að það sé átta sinnum betra fyrir lofthjúpinn að menga hér en annars staðar á hnettinum. Ég lagði það á mig að fara ofan í forsendur þeirra útreikninga fyrir nokkru og þeir eru rugl, þeir eru einfaldlega rugl. Það er fjarri öllu lagi að slíkt fái staðist, jafnvel þó borin sé saman framleiðsla hér og svo í þróunarríki sem stendur utan Kyoto, og þó að það noti kol eða olíu til að framleiða rafmagnið næst þetta hlutfall engan veginn og vantar mikið upp á.

Ég verð líka að segja eins og er að á bak við liggur sá háskalegi hugsunarháttur að það sé á þessum grunni réttlætanlegt að gefa allsherjarveiðileyfi á íslenska náttúru. Þá ættu menn líka í þriðja lagi að hafa það í huga að þó að allt verði virkjað á Íslandi sem virkjanlegt er að Gullfossi meðtöldum hefur það sáralítið vægi á heimsvísu. Eru menn tilbúnir til að leggja alla íslenska náttúru eins og hún leggur sig undir á grundvelli slíkrar vitleysu? Það held ég ekki.

Hvaðan kemur mönnum sú speki að endurnýjanlegir orkugjafar á Íslandi, að því marki sem sátt getur orðið um að nýta þá, komi okkur ekki til góða og jörðinni, nýttir í hvað sem það kann að verða til á komandi árum, án þess að við þurfum til þess sérstaka undanþágu að auka mengun sem því nemur? Ef svo væri ekki yrðu menn að kaupa upp kvóta á móti losuninni sem ný starfsemi kemur til með að hafa í för með sér.

Við gagnrýnum í sjálfu sér ekki hvernig Íslendingar stilltu sér upp á bak við markmiðin á Balí-fundinum varðandi Kaupmannahafnarfundinn, en við höfum áhyggjur af þætti mála hér heima af því að ríkisstjórnin er ekkert að gera. Tvö álver eru í undirbúningi á fullri ferð og ráðherrar ríkisstjórnarinnar greiða götu þeirra frekar en hitt. Það mun auka losunina sem því nemur og gera Íslendinga að heimsmeisturum í losun gróðurhúsalofttegunda á mann. Ætlum við að burðast með það met inn í framtíðina? Á það að verða okkar framlag? Við förum sennilega fram úr Bandaríkjamönnum á þessu ári ef svo heldur sem horfir.