135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

ferð ráðuneytisstjóra til Írans.

[10:33]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Í byrjun mars mun ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins hafa farið til Írans. Nú hlýtur sú spurning að vakna þegar ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins heimsækir ákveðið land hvort hann hafi verið þar í einkaerindum eða í ferð á vegum ráðuneytisins. Samband NATO-ríkjanna við Íran hefur verið takmarkað og Írönum hafa verið sett sérstök skilyrði af alþjóðasamfélaginu m.a. vegna kjarnorkumála. Þar fyrir utan eru Íranir þjóð sem ekki hefur virt mannréttindi.

Vegna þessarar ferðar ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Fór ráðuneytisstjórinn í umrætt sinn á vegum utanríkisráðuneytisins eða fór hann í einkaerindum?

Það er ljóst af fréttatilkynningu sem komið hefur frá Íransstjórn að ráðuneytisstjórinn talaði við utanríkisráðherra Írans sem hafði ýmislegt um þann fund að segja þannig að svo virðist sem hann hafi farið á vegum utanríkisráðuneytis og þá er spurningin: Hvaða erindum var ráðuneytisstjórinn að sinna í Íran fyrir utanríkisráðuneytið og getur verið að ferðin hafi verið farin að einhverju leyti í sambandi við kosningar til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna? Er það í samræmi við markmið hæstv. utanríkisráðherra og utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar?