135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

Íslendingur í einangrunarvist í Færeyjum.

[10:39]
Hlusta

Samúel Örn Erlingsson (F):

Herra forseti. Ég legg fram fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra um afstöðu ráðherrans til þess að Íslendingur skuli hafa dúsað í einangrunarvist í 170 daga í Færeyjum í tengslum við svonefnt Pólstjörnumál. Hér er engin afstaða tekin til þess til eða frá hvort eða hvernig viðkomandi hefur misstigið sig á vegi dyggðanna. En þessi langi tími, 170 dagar, er að því er mér best er kunnugt nánast einsdæmi á okkar slóðum. Til samanburðar má nefna að lengsta einangrunin í Geirfinnsmálinu á sínum tíma ku hafa verið rúmir 100 dagar.

Rannsóknarhagsmunir í fíkniefnamálum eru mikilvægir en velta má fyrir sér þörfinni fyrir þessari löngu einangrunarvist í nærri hálft ár. Gæsluvarðhald Íslendingsins í Færeyjum er í heild sinni orðið yfir 200 dagar eða nærri sjö mánuðir. Margoft hefur verið sýnt fram á skaðsemi einangrunar fyrir fólk og sérfræðingar efast um og hafa hrakið vitnisburð sem fram er fenginn við slíkar aðstæður.

Réttarhöld í málinu standa nú yfir í Færeyjum löngu eftir að dómur var kveðinn upp í sama máli hérlendis. Ég spyr utanríkisráðherra um afstöðu hennar og ráðuneytisins í þessu máli og hvort utanríkisráðherra muni taka það upp við kollega sína á Norðurlöndum hvort þeir sameinist nú ekki um að slíkt verklag verði ekki viðhaft á okkar slóðum.