135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

fjárfesting erlendra aðila í sjávarútvegi.

[10:49]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Því miður gefst ekki tóm til að fara yfir þessa löggjöf varðandi matvælaþáttinn sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni og ég gerði það reyndar á fimmtudaginn var í umræðum sem þá fóru fram um frumvarpið sem hv. þingmaður vék að.

Varðandi afstöðu mína til hugmyndarinnar um fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi hefur engin afstöðubreyting orðið hvað mig áhrærir. Ég tel að í meginatriðum eigum við að fylgja eftir þeirri löggjöf sem hefur verið þarna í gildi og hefur að mínu mati reynst vel. Í sjálfu sér er ekkert sem kallar á fjárfestingu erlendra aðila í íslenskum fiskveiðum að minnsta kosti.

Eins og hv. þingmaður nefndi er í gangi starf nefndar sem hæstv. viðskiptaráðherra skipaði þar sem farið er yfir þessa hluti. Í þeirri nefnd sitja bæði fulltrúar úr sjávarútvegsráðuneytinu og eins fulltrúar úr sjávarútveginum og þar verða þessi mál skýrð.

Bann er við beinni fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi, eins og hv. þingmaður rakti. Hins vegar eru heimildir í þessum sömu lögum um óbeina fjárfestingu. Þær heimildir eru rýmri en ég hygg að margir hafi áttað sig á. Þær reglur eru hins vegar flóknar og ég tel ástæðu til að einfalda þær og reyna að gera það í starfi umræddrar nefndar. En þetta er flókið mál.

Ég hef almennt verið þeirrar skoðunar að við ættum að reyna að tryggja að veiðirétturinn í íslenskri lögsögu sé í höndum Íslendinga að öðru leyti en því að við höfum verið með gagnkvæmar veiðiheimildir milli okkar og annarra ríkja, en það er önnur saga. En þær grundvallarbreytingar sem hv. þingmaður spyr mig um, ég hef ekki skipt um skoðun í þeim efnum.