135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

sjálfbær þróun og hvalveiðar.

[10:58]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara að deila við hv. þingmann um líffræði sjálfbærrar þróunar eða þau skilgreiningaratriði. Auðvitað er það rétt hjá hv. þingmanni að okkur ber að skila til komandi kynslóða lífríkinu eins og það var þegar við tókum við því. Það á við um hafið, það á við um landið, það á við um auðlindirnar og okkur ber einnig að rannsaka í þaula hver áhrif okkar — áhrif mannsins, tækninnar, mengunarinnar á jörðinni — eru á lífríki hafsins. Aðeins þannig getum við sett fram fullyrðingar eins og þær sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson setur hér fram.

Ég hef rætt við færustu sérfræðinga á þessu sviði og að sjálfsögðu stundum við miklar vísindarannsóknir og hafrannsóknir eins og menn vita. En færustu sérfræðingar á þessu sviði taka ekki undir rök þingmannsins. Við byggjum allar okkar veiðar á vísindalegum rannsóknum og vísindalegum rökum. Og það verður að halda.