135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

Vatnajökulsþjóðgarður.

[10:59]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég hef áður vakið máls á því máli sem ég kem hér upp til að spyrja hæstv. umhverfisráðherra um en það lýtur að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, hvað líði ákvörðunum um staðsetningu framkvæmdastjóra þess þjóðgarðs sem nýlega var ráðinn. Þá um leið var það gefið út að endanleg ákvörðun um staðsetningu höfuðstöðva lægi ekki fyrir. Á landsvæðinu sem er næst Vatnajökli binda menn miklar vonir við uppbyggingu Vatnajökulsþjóðgarðs og þess vegna spyr ég bæði um staðsetningu framkvæmdastjórans og ekki síður um það hvaða væntingar við megum hafa gagnvart því að upp byggist störf í tengslum við þjóðgarðinn sem verða staðsett við jökulinn.

Mér er ekki síst umhugað um þær byggðir sem eru næst jökulrótunum og standa mjög tæpt um þessar mundir. Við erum að tala um liðlega 300 km kafla af hringveginum þar sem byggðin hangir öll á bláþræði. Ég tel mjög miður hvað ríkisstjórnin og hið háa Alþingi hefur í rauninni lítið gefið þessu svæði gaum. Við höfum nú þegar byggðaáætlanir fyrir ýmis önnur jaðarsvæði landsins en þetta svæði hefur enn sem komið er orðið út undan. Hér þarf vissulega að taka á og því er líka mjög kallað eftir því að Vatnajökulsþjóðgarður megi verða þessu svæði að liði. En ég spyr hvenær við megum búast við því að við fáum einhverja niðurstöðu um þau störf sem eiga að byggjast upp á þessu svæði, hvenær verði ráðið til þeirra og hvenær þau verði auglýst.