135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

Vatnajökulsþjóðgarður.

[11:01]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir fyrirspurnina. Þessa vikuna er verið að ráða í rúmlega 30 stöður landvarða og skálavarða sem munu starfa og hefja störf í þjóðgarðinum í sumar. Eins og hv. þingmenn vita skiptist Vatnajökulsþjóðgarður í fjögur rekstrar- og verndarsvæði. Á hverju svæði verður gestastofa og í raun má segja að höfuðstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs verði fjórar enda er stærð garðsins með þeim hætti að það verður að vera hægt að taka sómasamlega á móti fólki á öllum aðalsvæðunum. (Gripið fram í.) Það eru engar höfuðstöðvar í Reykjavík eins og hv. þingmaður kallar hér fram í.

Vatnajökulsþjóðgarður er og verður, ef allt gengur eftir, væntanlega einhver besta og mesta byggðaaðgerð sem ráðist hefur verið í hér á landi, uppbygging þjóðgarðs á heimsvísu sem skapar tugi starfa í þjóðgarðinum, sem skapar hundruð afleiddra starfa í ferðaþjónustu, í veitingarekstri og öllu því sem fylgir ferðaþjónustu almennt. Ég held að hér sé reyndar einstakt tækifæri á ferðinni fyrir alla Íslendinga en ekki síst þær byggðir sem að þjóðgarðinum og í þjóðgarðinum eru. Mér finnst að sveitarstjórnarmenn allt í kringum þjóðgarðinn hafi verið að vakna til vitundar um öll þau miklu tækifæri sem búa í Vatnajökulsþjóðgarði.

Það er mjög gaman að upplifa það þegar maður fer til Hafnar í Hornafirði hvernig bæjarstjórnin þar og Hornfirðingar hafa tekið Vatnajökulsþjóðgarði opnum örmum og ætla að nýta sér öll þau tækifæri sem hann býður upp á út í æsar. Þannig mun þessi þjóðgarður stuðla að mjög mikilli og merkilegri byggðauppbyggingu og sköpun góðra starfa á landsbyggðinni.